Tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson hefur sent frá sér glænýtt jólalag sem ber heitið „Lýstu upp desember“.
Lagið – sem fer beina leið á jólalagalista FM Trölla – samdi Sumarliði Helgason, sem einnig er höfundur textans, en Sumarliði er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt í hljómsveitinni Hvanndalsbræðrum.
Lagið, sem er hugljúf viðbót við íslensku jólatónlistina, kemur út á hárréttum tíma til að kalla fram jólaandann. Magni Ásgeirsson, sem er landsþekktur fyrir einstaka rödd sína og kraftmikla frammistöðu, túlkar hér glæsilega texta Sumarliða um von, kærleika og birtuna sem jólin færa okkur.
Lagið hafði Sumarliði átt ofan í „skúffu“ í nokkur ár en ákvað svo að dusta rykið af því og senda á Magna sem tók vel í að ljá því rödd sína.




