Undanfarnar vikur hafa verið truflanir á útsendingu FM Trölla á Siglufirði.
Forsaga málsins er sú að þegar símafyrirtækin tóku niður sinn búnað á dögunum virðast hafa orðið skemmdir á köplum sem liggja upp 54 metra strompinn á eyrinni á Siglufirði. Þetta varð til þess að FM útsendingar FM Trölla og Lindarinnar á Siglufirði lömuðust að miklu leyti fyrir nokkrum vikum, þótt útsendingarnar hafi ávallt náðst á netinu og öðrum sendum Trölla.
Ákveðið var að finna loftnetunum – sem voru á umræddum strompi – nýjan stað, en þar sem rekstrartekjur FM Trölla duga ekki fyrir leigu í nýju fjarskiptamastri Neyðarlínunnar þar sem símafyrirtækin, Neyðarlínan og stóru útvarpsstöðvarnar hafa sinn búnað varð úr að setja upp nýtt mastur á húsnæði SR-Vélaverkstæðis, þar sem kallast “Gamla Raffó”.
Lengja þurfti stálrör í rúma 10 metra og smíða festingar, og fór sú vinna fram á SR-Vélaverkstæði með aðstoð sérfróðra reynslubolta í járnsmíði og hönnun vélbúnaðar af ýmsu tagi.
Körfubíll slökkviliðsins á Siglufirði var fenginn til að hífa mastrið. Við stjórnvölinn var annar reynslubolti Ámundi Gunnarsson fyrrum slökkviliðsstjóri. Til ómetanlegrar aðstoðar var Þorsteinn Sveinsson.
Nú geta íbúar Siglufjarðar og gestir aftur stillt viðtækin sín á FM 103.7 til að ná útsendingum FM Trölla á Siglufirði, sem eftir breytingar nást enn betur þar en áður.
Meðfylgjandi myndir tók Kristín Magnea Sigurjónsdóttir fréttastjóri og yfirljósmyndari Trölla.