Nemendafélagið Trölli er starfrækt við Menntaskólann á Tröllaskaga og sér það um að skipuleggja félagsstarf nemenda.
Fyrir nokkru var skipað í nýtt nemendaráð, hefur það þegar haldið fyrstu viðburði vetrarins og fleiri eru á döfinni ásamt nýju spennandi verkefni. Í ráðinu frá síðustu önn eru Hanna Valdís Hólmarsdóttir og Víkingur Ólfjörð Daníelsson og ný komu inn Auður Guðbjörg Gautadóttir, Guðrún Ósk Auðunsdóttir og Ólafur Styrmir Ólafsson. Sem fyrr var hugað sérstaklega að kynjahlutfalli við val í ráðið.
Nýtt nemendaráð mun halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið síðustu ár þ.e. að krydda daglegt líf í skólanum með ýmsum minni viðburðum á skólatíma og standa fyrir stærri viðburðum á kvöldin. Hinir vinsælu þemadagar á miðvikudögum eru t.d. komnir í gang þar sem nemendur og starfsfólk mæta í skólann klædd eftir mismunandi þemum og nýnemadagurinn var haldinn í byrjun september. Tveir stærstu viðburðirnir í félagslífinu eru í lok hvorrar annar, jólakvöld í byrjun desember og svo árshátíð að vori, er mikið í þá lagt og hefur þátttaka verið mjög góð síðustu ár.
Nýja verkefnið sem nemendaráð er nú að vinna að er ferð ráðsins til Danmerkur. Þar er hugmyndin að heimsækja skólann Ørestad Gymnasium í Kaupmannahöfn, kynna sér starfsemi hans og ekki síst hvernig nemendaráðið þar starfar. Vinnur ráðið nú að umsókn að Erasmus+ styrk til ferðarinnar.
Nemendaráði til halds og trausts við skipulag viðburða er Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi skólans, en rík áhersla er lögð á frumkvæði nemendanna sjálfra við hugmyndavinnu og framkvæmd.
Mynd/Gísli Kristinsson