Breyting hefur verið gerð á reglugerð um innflutning hunda og katta, sem m.a. felur í sér að ekki verður lengur heimilt að flytja hunda og ketti til landsins í farþegarými flugvéla. Nýleg dæmi eru um ólöglegan innflutning hunda sem fluttir voru með þessum hætti og komust þá farþegarnir óáreittir með hundana út í gegnum flugstöðina. Það er alvarlegt brot á þeim innflutningsskilyrðum sem hér gilda.

Breytingin tekur gildi 11. apríl nk. Áfram verður þó heimilt að flytja vottaða hjálparhunda í farþegarými og hunda og ketti sem aðeins millilenda á Íslandi. Hundar og kettir sem fengið hafa innflutningsleyfi, og eru á leið í einangrun á Íslandi, eru alla jafna fluttir til landsins sem frakt eða farangur, eða um 85% dýranna. Þessi breyting hefur því ekki áhrif á stóran hluta hunda- og kattainnflutnings.

Að lokinni innflutningsskoðun á Keflavíkurflugvelli eru dýrin flutt í einangrunarstöð þar sem þau dvelja í tvær vikur. Á meðan dvöl í einangrunarstöð stendur er fylgst með heilsufari dýranna og sýni tekin til rannsókna. Þrátt fyrir að auknar heilbrigðiskröfur fyrir innflutning hafi verið teknar upp árið 2020 er nokkuð um að dýr í einangrun greinist með smit, sér í lagi ýmis sníkjudýr. Í þeim tilfellum er hægt að hefja meðhöndlun og koma í veg fyrir að smitefnin berist í önnur dýr í landinu.

Með þeirri reglugerð sem hér um ræðir er einnig gerð breyting á lista yfir viðurkennd útflutningslönd en það eru lönd sem að mati Matvælastofnunar hafa sýnt fram á viðunandi dýrasjúkdómastöðu og dýraheilbrigðisþjónustu. Með breytingunni færist Singapore upp í flokk landa sem eru án hundaæðis (landaflokk 1) en Serbía, Slóvakía og Ungverjaland færast niður í flokk landa þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum (landaflokk 2).  Bosnía, Hersegóvna og Taivan teljast nú til viðurkenndra útflutningslanda og flokkast í landaflokk 2.