Dómsmálaráðherra hefur sett á fót starfshóp sem falið er að undirbúa frumvarp til breytinga á kosningalögum til að auka jafnræði í atkvæðavægi og þingsætadreifingu.
Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að ráðast eigi í slíkar breytingar.
Dómsmálaráðherra segir að með skipan starfshópsins sé stigið gott skref í átt að auknu jafnræði gagnvart mikilvægum borgaralegum réttindum sem kosningarétturinn er.
„Markmiðið er að tryggja að atkvæði allra landsmanna vegi sem jafnast. Það er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi og þar að auki mannréttindamál. Verkefni hópsins er að leggja fram faglega, yfirvegaða og framkvæmanlega tillögu sem stuðlar að því markmiði,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Skipan hópsins
Formaður starfshópsins er Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Auk hans skipa hópinn Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands, og Þorkell Helgason, prófessor í stærðfræði.
Miðað er við að starfshópurinn skili ráðherra frumvarpsdrögum fyrir 15. desember 2025.
Mynd/aðsend
