Töluvert hefur verið rætt um mikilvægi þess að stytta vinnuvikuna, sem í dag er almennt 40 klukkustundir. Á fundi atvinnurekenda á Akureyri nú í nóvember voru kynntar nýjar rannsóknir sem gerðar voru á starfsfólki á vinnustöðum þar sem vinnuvikan hefur þegar verið stytt. Helstu niðurstöður rannsóknanna leiða í ljós að starfsfólkið telur almennt að stytting vinnuvikunnar hafi haft jákvæð áhrif.

Allar kannanir sem verkalýðshreyfingin hefur látið gera, sýna svart á hvítu að vaxandi fjöldi launafólks stendur ekki undir álagi, hraða og kröfum nútíma vinnumarkaðar. Á sama tíma glímir fólk við krefjandi verkefni heima fyrir við umönnun barna, maka og foreldra.

Verkalýðshreyfingin leggur því mikla áherslu á að jafnvægi ríki milli atvinnuþátttöku og fjölskylduábyrgðar í einkalífi. Slík samþætting sé nauðsynleg forsenda ásættanlegra starfsskilyrða og þeirra lífsgæða sem launafólk á rétt á.

Verkalýðshreyfingin gerir kröfu um að stytting vinnuvikunnar verði rædd í kjaraviðræðunum sem nú standa yfir.

Aukið álag, streita, kulnun í starfi og fleiri þættir leiða til alvarlegra veikinda og örorku. Hagmunir launafólks, atvinnulífsins og samfélagsins alls eru því augljósir.

Nokkur atriði sem nauðsynlegt er að ræða

Þegar rætt er um styttingu vinnuvikunnar þarf að taka tillit til margra þátta, styttingin ein og sér leysir ekki öll vandamál. Málið er flóknara en svo:

  • Tækninni fleygir fram og tryggja þarf að breytingarnar raski ekki jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs.
  • Lengja þarf fæðingarorlof og hækka greiðslur til lág- og millitekjufólks úr fæðingarorlofssjóði.
  • Tryggja þarf öllum börnum leikskóladvöl og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  • Tryggja þarf rétt barna til skóla-, íþrótta- og tómstundarstarfs á leik- og grunnskólaaldri.
  • Endurskoða þarf rétt launþega til frítöku vegna veikinda barna, einnig rétt til frítöku vegna umönnunar fjölskyldumeðlima, svo sem maka og foreldra.
  • Launþegum þarf að gefa aukin tækifæri á að stunda frekara nám og endurmenntun á vinnutíma án launaskerðingar.
  • Auka þarf raunverulega möguleika launafólks til sveigjanlegra starfsloka, þar sem tekið er tillit til ólíkra aðstæðna á vinnumarkaði.

Umræðan er hafin

Verkalýðshreyfingin hefur undirbúið komandi kjaraviðræður vel, kröfugerðin var mótuð og samþykkt af grasrótinni. Stytting vinnuvikunnar kann að hljóma vel í eyrum flestra. Við verðum samt að gæta að því að jafnvægi ríki á milli atvinnuþátttöku, fjölskylduábyrgðar og einkalífs. Umræðan í þjóðfélaginu hafin fyrir alvöru, sem vissulega er mikið  fagnaðarefni.

Verkalýðshreyfingin leggur af stað í kjaraviðræður meðal annars með það að markmiði að bæta starfsumhverfið, auka sveigjanleika og samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf.

Björn Snæbjörnsson

formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands