Albert Einarsson

Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.

Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).

Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.

Það var margt sem gerðist úti í bakka. Hér eru nokkur minningabrot – örsögur – sem ég hef sett saman. Þetta er meira satt og rétt en logið, einhver blanda.

Olíueldur

 Það var kynnt með olíu í verkamannabústöðunum. Neðan við bústaðina voru niðurgrafnir olíutankar. Þessir tankar voru farnir að gefa sig og það lak olía út í jarðveginn og með tímanum seig hún alla leið niður í bakkana ofan við fjöruna. Á einum stað var þetta greinilegt og olían sást vel. 

Það var kannski ekki svo mikið vesen með umhverfisspjöll á þessum árum, svo enginn gerði neitt í að laga þennan leka.  

Ég var eitthvað bauka niðri í fjöru og fikta með eldspýtur sem ég hafði náð í. Það var alltaf eitthvað til að kveikja í, spýtur sem rak á land og annað rusl og ekki síst sinutjásur í bakkanum. Ég held að ég hafi ekki ætlað að kveikja í olíunni, en sinan náði þangað og svo fór sem fór að eldurinn náði sér á flug í olíuvotri torfunni. Fyrst til að byrja með var þetta bara gaman, ég man það, en þegar eldtungurnar stóðu hátt fór mér að líða illa. Ég varð hræddur og náði í eitthvað ílát, sem ég fann í fjörunni, og fór að bera sjó á bálið, en bæði var að ílátið var lítið og ég sjálfur var lítill og þess vegna gekk slökkvistarfið illa. 

Það fór að drífa að fólk, bæði krakkar og fullorðnir, og einhverjir töluðu um brunaliðið. Aðrir töluðu um að láta þetta bara brenna út, olían tæki enda. 

Ég lét sem minnst fyrir mér fara og lét engan vita að það væri ég sem væri sökudólgurinn með eldspýturnar. Það var samt spurt um það hver eldsupptökin hefður verið. Svarið var eins og oft áður að það hefðu verið einhverjir krakkar að fikta með eldspýtur. Það var nálægt sannleikanum, en einhverjir krakkar voru bara einn krakki, nefnilega ég. Þetta hef ég aldrei áður upplýst um. 

Mig minnir að þetta hafi orðið til þess að tankurinn í ytri enda var grafinn upp og lagaður til að koma í veg fyrir leka. Það var dýrt að láta olíuna bara leka svona út í buskann. 

Forsíðumynd/Einar Albertsson