Sænsk/íslensk ástarsaga með sorglegum endi, Salka Valka, Gerpla, Nóbelsverðlaun og ævintýraferð frá 1950

Þessi saga kom til mín fyrir tilviljun gegnum tengsl mín sem ritari hjá hinu sögufræga efnahagsfélagi: “Félagsskapur Bohuslänskra sjómanna á Íslandsmiðum” (Bohusläns Islandsfiskare ekonomiska förening) “BIFF. stofnað 1933”

Sagan greip í mig nokkuð sterkt vegna þess að hún snýst um ást sem lét ekki fjarlægð eða einangrun hindra sig og síðan er hún líka mjög svo lýsandi yfir hversu erfitt það var að ferðast hér áður fyrr, bæði innanlands og á milli landa.
Maður þurfti svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum.

Þar fyrir utan er endirinn átakanlega sorglegur og lýsir vel þeim tíma sem sagan gerist á.

Svo er hér líka mjög svo merkileg tenging varðandi þýðingar yfir á sænsku á verkum Laxness sem leggja grunnin fyrir Bókmennta verðlaunum Nóbels 1955.

Sagan er þýdd og endursögð úr frásögn Gunnars Nyberg, en hann var 14 ára þegar hann fór í mikla ævintýraferð til Íslands sumarið 1950. Greinarhöfundur bætir síðan við ýmsu skemmtilegu og fræðandi úr símtali við Gunnar sem í dag er 83 ára sérfræðilæknir á eftirlaunum og hann hefur búið meiripartinn af sínu lífi hér á Gautaborgar svæðinu.

Docent Gunnar Nyberg.

 

Sagan birtist nýlega í „tímarita hefti“ sem heitir „Heimahöfn“ sem er sameiginlegt málgagn Sjómannakirknanna hér í Gautaborg.
Skemmtilegt að svona sérprentuð tímarit séu til í okkar stafræna heimi í dag.
Sagan birtist í „Hemmahamn“ nr. 3 2019, árgangur 60.

Minningar um ævintýraferð sumarið 1950.

Ingegerd stóra systir mín er 15 árum eldri en ég og elst af 5 systkinum og við ólumst öll upp í háskólaborginni Uppsala en faðir minn Henrik Nyberg starfaði þar sem prófessor, hann var einnig meðlimur í Sænsku Akademíunni, sat á stól nr. 3 frá 1948 til dauðadags 1974.

Ingegerd var mikil áhugamanneskja um tungumál og menningu, var hámentuð í þeim fræðum og hún ferðaðist líka mikið. Hún hafði einnig áhuga á norrænum fræðum og íslensku tungumáli og þar af leiðandi brá hún sér í ferðalag til Íslands, fyrst rétt eftir stríð og þá varð hún mjög svo hrifin af landi og þjóð…  en ekkert sérstaklega af presti sem var eitthvað að reyna að gera hosur sínar grænar fyrir henni eitt sumarið.

Hún er hér á landi af og til við nám og störf og sumarið 1949 er hún kaupakona í Bárðardal en þar kynnist hún bráðmyndarlegum Samvinnuhreyfingarmanni og vellesnum bónda en það er Jónas Baldursson frá Lundarbrekku í Bárðardal en þar er á þátíða mælikvarða stórt bú með 40 hektara landi, fullt af kindum, 9 kýr og mörg stór og mikil ræktuð tún.

Og þau verða svo yfirsig ástfangin að þau slá til og láta splæsa sig saman í jólafríi Í Uppsölum þann 4 janúar 1950. „Ingigerður Baldursson Nyberg“  flytur síða strax þar á eftir á Lundarbrekku sem húsmóðir og bóndafrú. En þau náðu bara að vera gift i 1 ár og 17 daga áður en hörmungar atburður slítur þau í sundur.

Ingegerd og Jónas. Ljósmyndari óþekktur.

 

„Í eftirmála ferðasögu Gunnars verður fjallað nánar um þetta stórkostlega par og þá sérstaklega um ævistarf Ingigerðar og hennar stóra framlag til að vekja athygli umheimsins á Íslenskum bókmenntum og menningu.“

Á vordögum 1950 sendir Ingegerd boð um að hún óskar þess að einhver úr fjölskyldunni komi í heimsókn á Lundarbrekku, enginn hefur færi á að fara og er þá ég 14 vetra skóladrengurinn valinn til að fara í þessa ævintýraferð.

Jónas bóndi hafði verið á síld og vissi að fjöldinn allur af sænskum reknetabátum kæmu reglulega yfir sumarið til Siglufjarðar. Ingegerd systir skrifar síðan bréf til formanns Félagsskaps Bohuslänskra sjómanna á Íslandsmiðum og biður um far fyrir mig á frá Svíþjóð til Siglufjarðar.
En það er nú enginn annar en sjálfur Oskar Gustafsson skipstjóri og eigandi Rudolf  LL 491 frá Edshultshall sem fær bréfið, en hann var mikill frumkvöðull í rekneta síldveiðum Svía við Íslandsstrendur og sá hinn sami sem fékk flott málverk eftir Hebba málara frá vinum á Siglufirði.
Núverandi formaður Alf Tore Gustafsson er sonur Oskars.

Sjá nánar í greinarseríunni: HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 2 HLUTI. Sem birtist nýlega hér á trolli.is.

Oskar skipstjóri tók vel í þessa beðni, Guði sé lof því það var mjög dýrt að ferðast með farþegaskipum á þessum tíma. Ég fékk boð um að munstra um borð í Rudolf 8 júlí og að ég þyrfti bara að borga fyrir matinn um borð.

Ég hafði þetta sumar verið hjá föður mínu á vesturströndinni, en hann hafði nýlega gift sig aftur og ég var nánar til tekið staddur í Fjällbacka og þar náði ég að kynnast fóstru minni og tveimur fóstbræðrum í fyrsta sinn.

Gunnar Nyberg 15 ára. Ljósmyndari óþekktur.

 

Ég var síðan settur í rútu til Lysekil og þar átti ég að gista hjá vini föður míns sem vann hjá Hafrannsóknarstofnun þar í bæ, mér til mikillar furðu var ég látinn sofa einn í stofnunni sjálfri. Snemma næsta morgun tók ég strandferða bát sem þræddi smáhafnir niður vesturströndina til Edshultshall.

Oskar og 7 manna áhöfn tóku vel á móti mér og var mér vísað til koju fljótlega eftir að siglt var af stað seinnipart sama dag. En áður en ég fékk að leggja mig varð ég barnið sem og kokkurinn sem var ákafur bindindismaður og allir aðrir að skála og kyngja rótsterkum brennivíns snappsi. Þetta var hefð og enginn komst undan skyldumætingu í þessa serímoníu. Mér varð svo sem ekkert meint af þessu fyrr en um nóttina þegar undiraldan framkallaði smá ógleði á 18 klukkutíma siglingu til Kristiansand í Noregi en þar var gert stutt stopp og fyllt á vatnstanka og fl.

Rudolf LL 491. Frakt og rekneta síldveiðibátur frá Edshultshall.

 

Það gerðist ekki mikið spennandi í þessari 7 sólarhringja siglingu til Íslands og Oskar sagði að svona rólegheita veður hefði hann ekki upplifað síðustu 15 árinn. En matarlykt og hægur djöfullegur veltingur á Norðuratlandshafs öldum gerðu mig hálfsjóveikan en samt ekki nægilega til að kasta upp.

Ég forðaðist að borða og lifði á Vichy- vatni og súkkulaði alla daga. En það var gott og gaman að vera uppi á dekki í frísku hafsloftinu og sjóararnir kenndu mér að splæsa kaðla og hnýta allskonar hnúta og svo náði ég að lesa nokkrar bækur líka.

Á sjöunda degi sjáum við loksins land og ég varð mest hissa á að á þessari eyju væri svona mikið af skærgrænum blettum, kannski hálfgerðar ofsjónir eftir að bara hafa séð gráan himinn og haf alla daga.

Glóðarhausa mótorinn gamli með sínum jafna hóstandi takti svæfði mig á kvöldin og truflaði mig ekkert á daginn nema þennan dag þegar við fengum landsýn þá varð ég skíthræddur þegar eldsúlur stóðu upp úr skorsteininum. Karlarnir róuðu mig niður og söguð: „Þurfum bara að drepa smástund á vélinni og svo verður þetta allt í lagi.“ 

Á bryggjunni á Siglufirði beið vinur Jónasar mágs míns sem ég dvaldi hjá fram að miðnætti sama dag en þá hélt sjóferð mín áfram yfir nóttina með strandferðarskipi inn Eyjafjörð og til Akureyrar.

Siglufjörður 1949. (Ljósmynd lánuð úr: SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI. 1 – 2 HLUTI

 

Þegar ég kvaddi Oskar og áhöfnina á Rudolf með innilegu þakklæti og spurði hvað ég skuldaði fyrir matinn, þá svarði Oskar Skipstjóri: „Það er ekki hægt að taka borgað fyrir þennan smáfuglamat sem þú borðaði“.

Snemma dags mætti mér bókaútgefandi á Akureyri og ég fékk að sofa eina nótt í prentsmiðjunni hans, en þá kom nágranni mágs míns frá Bárðardal og sótti mig á gömlum jeppa. Allir í dalnum hjálpa til þegar skroppið er í bæjarferð til Akureyrar.

Ég var orðinn ansi ferðaþreyttur og það urðu ekki  miklar samræður á milli mín og bílstjórans….. við skyldum hreinlega ekki hvorn annan.

Það urðu mikil fagnaðarlæti þegar ég eftir um 11 sólahringa ferðalag kom loksins á Lundarbrekkubæinn en þar var ekki bara eitt íbúðarhús, því fyrir utan hús systur minnar og mágs voru þarna tvö önnur íbúðarhús og kirkja líka.

Sem sagt, einhverskonar eigið lítið bæjarfélag í Bárðardal.

Úr Bárðardal. Ljósmyndari óþekktur.

 

Í þessari náttúruperlu var ég i heilan mánuð, fékk eigin hest til afnota, gamla rólyndis meri sem ég reið upp um fjöll og firnindi eins og sænskur „ The Lone Rider“

Á sunnudögum var oft farið i útreiðarúra í Bárðardag og hestarnir látnir vaða yfir Skjálfandafljót þegar við skruppum í kaffi og kökur hjá nágrönnum okkar. Síðan fórum við kannski yfir fljótið aftur lengra inn í dalnum á einhverskonar „víraferju“

Þetta sumar var eitt allsherjar ævintýri fyrir mig með veiðiferðum þar sem dregið var fyrir urriða í fjallavötnum og hann síðan reyktur og þurrkaður fyrir veturinn.

Það var einnig gert mikið magn af slátri og var ýmislegt lagt í súrtunnur, en þessi sýra kom úr skyrvinnslu. (Skyr er einhverskonar þykkt og súrt súrmjólkurkrem)

Maturinn geymdist vel i þessum tunnum en lyktin og bragðið er hræðilegt.

En allt gott tekur enda og ég verð að mæta fljótlegan i skólann. Jónas mágur minn kaupir handa mér flugmiða með Catalina sjóflugvél frá pollinum á Akureyrir til Reykjavíkur og þaðan sigldi ég síðan með stóru farþegaskipi til Köben með stuttri viðkomu í Edinburgh. Þetta var 5 sólarhringa sigling og best af öllu var að þegar margir voru illa sjóveikir var ég eldhress.

Líklega sama Catalina sjóflugvélin sem Gunnar fór með frá Akureyri en hún var notuð í farþegaflug til og frá Siglufirði líka.

 

Ég hafði greinilega sjóast vel vikuna um borð í Rudolf LL 491.

Þvílíkt sumar og þvílíkt frjálsræði fyrir mig 14 ára strákinn. Ég minnist dásamlegs sólarlag á heimleið eftir urriðaveiðar þar sem glæsilegur og stoltur mágur minn ríður sterkum gæðingi með fullan poka af ferskum urriða……

En því miður endar þessi saga mín í sorg og söknuði fyrir mig og í lífstíðarsorg fyrir systur mína, því 21 janúar 1951 lést Jónas i svefni eftir að hafa veikst af mislingum á fullorðins aldri sem líklega hafði leitt til sýkingar í hjartavöðva.

Ingegerd flutti tæpu ári seinna heim til Sverige með alla sína sorg og korn ungan son sem heitir Hinrik Nyberg, skýrður eftir Henrik afa sínum og hann býr í dag í Uppsala. Systir mín giftist sig aftur nokkrum árum seinna og stofnaði nýja fjölskyldu.

Seinna í lífinu flutti ég sjálfur til Mölndal 1966 (Bæjarfélag sem er ekki ósvipað og Kópavogur, sem sagt: áfastur hluti af Gautaborg) og ég hef búið þar alla tíð síðan.
Ég hef líka lengi átt sumarhús úti á eyjunni Tjörn og þar á ég góðan vin sem er alvöru sjómaður og sér til þess að ég sé ekki matarlaus þegar kemur að makríl, rauðsprettu, krabba og humar.

Ég minnist sjóferðar minnar með Rudolf með miklu þakklæti og gegnum að ég styð starfsemi Sjómannakirkjunnar er ég áskrifandi af Heimahöfn og þar af datt mér í hug að setja þessi ferðasöguorð frá 1950 á blað og ég vona að lesendur hafi haft ánægju af að lesa þessa sögu.

Mölndal maj 2019

Kær kveða.

Gunnar Nyberg, 83 år.
Docent, leg läkare
Specialist Invärtes medicin.

EPILOG:

Hún „Ingigerður Baldursson Nyberg Fries“ var ótrúleg manneskja!
Og það var Jónas Baldursson svo sannarlega líka.

Ingegerd var fyrir utan að vera um stuttan tíma húsmóðir á sveitarbænum Lundarbrekku í Bárðardal:
Háskólakennari í norrænum tungumálum, rithöfundur, þýðandi, guðfræðingur og prestur (1985) og heiðursdoktor við Háskólann í Umeå.

Þegar kemur að því að lýsa persónu Jónasar sem kvaddi okkur óvænt og alltof ungur er einfaldast fyrir mig að vísa ykkur Íslendingum í minningargrein í tímaritinu Samvinnan frá 1951.

Sjá grein hér: Samvinnan 3 tölublað 1951. bls 24 og 25.

En þegar kemur að Ingegerd verð ég líklega að hjálpa til með þýðingum og útskýringum sem komu fram í spjalli mínu við Gunnar bróðir hennar.

Því gjörningur Ingegerd snýst einmitt um þá einstöku hæfileika að geta skilið tungumál og hugafar og menningu þeirra sem skrifa það og tala.

Og þar af leiðandi orðið góður þýðandi.

Sérstaða Íslenskrunnar er að þrátt fyrir að hún sér hið eina sanna „Fornnorræna tungumál“ þá er hún ekki skiljanleg fyrir aðra en Íslendinga og frændur okkar í Færeyjum.

Ég hef ætíð verið mikil aðdáandi verka Halldórs Kiljan Laxness og lesið hann allan á Íslensku og á seinni árum á sænsku líka og þá hef ég verið nokkuð fastur í að allt sem ég hef lesið á sænsku sé þýtt af Peter Hallberg en svo er ekki.

Því samkvæmt minni meiningu er það Ingegerd sem kynnir Laxness fyrir sænsku þjóðinni og líklega pabba sínum sem sat í Akademíunni í 26 ár með þýðingu sinni á Salka Valka en hún kemur út í Svíþjóð fyrst 1952 (á Íslandi 1931) hjá Bókaútgáfunni Rabén & Sjögren/Vi, og við verðum að staldra aðeins við orðið Vi, því það er nafnið á hinu risastóra málgagni Samvinnuhreyfingarinnar í Svíþjóð.

Næsta verk sem hún þýðir er Gerpla með útgáfu 1954 hér í Svíþjóð og Laxness fær síðan Bókmenntaverðlaun Nóbels 1955…

Hmm… er hér eitthvað atburðarsamband ?

 

Halldór Kiljan Laxness stendur við púltið sitt og skrifar Gerplu. Ljósmyndari Jöran Forrsslund, ljósmynd úr bókinni “Vind över Island” Sjá nánar: SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI. 2 HLUTI

 

Hún þýddi líka Brekkukotsannáll, Brennu Njálu og ýmislegt annað sem sjá má hér neðar í upplýsingum um þessa stórkostlegu konu á Wikipedia.

Ég vil meina að við verðum að minnast Ingegerd frá Lundarbrekku með stærri virðingu og þakklæti fyrir allt sem hún hefur gert fyrir sérstöðu Íslenska tungumálsins, bókmenntir og sögu Íslands….. AMEN

Ingegerd (Ingigerður) Baldurson Nyberg Fries lést 14 febrúar 2016 í Umeå, 94 ára gömul.

“Översättningar: Ingegerd Nyberg Fries, (urval)]

  • Halldór LaxnessSalka Valka(Rabén & Sjögren/Vi, 1952)
  • Halldór Laxness: Gerpla: en kämpasaga (Gerpla) (Rabén & Sjögren/Vi, 1954)
  • Halldór Laxness: Piplekaren (1955), tillsammans med Peter Hallberg och Leif Sjöberg
  • Halldór Laxness: Tidens gång i backstugan (Brekkukotsannáll) (Rabén & Sjögren/Vi, 1957)
  • Hannes Pétursson: Tid och rum (Stund og stader) (FIB:s lyrikklubb, 1965)
  • Svava Jakobsdóttir: Den inneboende (Leigjandinn) (Bonnier, 1971)
  • Ólafur Jóhann Sigurðsson: Pastor Bödvars brev ; Myren där hemma (Bréf séra Böðvars och Mýrin heima) (Rabén & Sjögren, 1978)
  • Njals saga(Njáls saga) (Läsabra, 1981)
  • Orknöjarlarnas saga(Orkneyinga saga) (Gidlund, 2006)
  • Kormaks saga(Kormáks saga) (Kungl. Vitterhets historie och antikvitets akademien, 2008)”
    (Wikipedia 2019)

Kær kveðja

Nonni Björgvins.

Aðrar greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson á Trölli.is

Aðrar gamlar greinar og fréttir eftir Jón Ólaf Björgvinsson á Sigló.is

Texti, þýðingar, ljósmyndavinnsla:

Jón Ólafur Björgvinsson

Texti og aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi höfunda.