Ég minnist þess með þakklæti að í minni barnæsku á Sigló umgengust börn mikið með eldra fólki. Afar og ömmur höfðu kannski meiri tíma eða hreinlega tóku sér oftar tíma til að tala við og hlusta á börn í harðri vinnandi lífsbaráttunni.

Þaðan koma sögur og minningar sem ég skrifa um í dag og gegnum þeirra sögur get ég kíkt aftur í aldir og séð fyrir mér myndir þar sem lífið er svo allt öðruvísi en það núna.

Ljósmyndirnar hinsvegar , sem oft fylgja með í mínum sögugreinum koma úr þeim ljósmyndaminningarfjársjóði sem er geymdur í Ljósmyndasafni Siglufjarðar og það virðist vera allvel sama hvað eða að hverju ég leita að þar, það eru til myndir af persónum og öllu mögulegu öðru sem mér dettur í huga að skrifa um.

Ótrúlegt en satt.

Það er líka ótrúlegt þvílík viðbrögð sem greinarhöfundur hefur fengið frá lesendum gegnum félagsmiðasamskipti eftir að  greinin: HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 HLUTI birtist á sunnudaginn var og eins og vanalega þegar fólk er minnt á fjársjóðinn á Ljósmyndasafni Siglufjarðar þá hrynur þessi helv… „server“ inná Akureyri.

Sjálfur var ég þá að leggja lokahönd á þennan kafla þegar þetta gerðist, mér til mikillar armmæðu. Hafði strax samband við Anítu Elefsen hjá Síldarminjasafninu sem nú rekur þennan hluta heimasíðunnar sigló.is.

“Þetta stendur allt til bóta” lofar Aníta…. en það er of langt og leiðinlegt að útskýra þessar stafrænu fornminjar sem stýra þessari heimasíður hér og nú. (Meira um þetta vandamál seinna)

Trölli.is mun á næstunni endurbirta ýmislegt efni frá gamla siglo.is.

 

En í millitíðinni lengdist þessi kafli……. Halló halló…… takið það rólega…. ekki í orðum, heldur í fleiri skemmtilegum ljósmyndum sem mér bárust og ég bæti þeim við hér í lok greinarinnar.

Mér hefur samt ekki tekist að finna myndir af stórum verkum sem Hebbi málaði á veggi í húsum á Sigló og ég væri þakklátur ef lesendur sem hafa slíka mynd í sínum fórum og ef þeir gætu lagt þær í spjallþráðinn undir greinarauglýsingunni í Facebook-grúppunni:

Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir.

Sem og myndir af listaverkum sem hanga í heimahúsum víða um land.

Þar með skapast kannski byrjun á alvöru „Katalog“ yfir verk þessa merkilega manns.

 

Hebbi að mála auglýsingu fyrir Ljósmyndastofu Siglufjarðar sem Kristfinnur Guðjónsson rak í áratugi en Kristfinnur var faðir Örlygs sem er einn af frumkvöðlum Síldarminjasafn Íslands. Þegar ljósmyndir frá þessari ljósmyndastofu og myndasafn Steingríms Kristinssonar runnu saman varð Ljósmyndasafn Siglufjarðar til og það er enn að vaxa. Enn og aftur…. takk Steingrímur, þér hefur tekist að skapa eitthvað ómetanlegt og ódauðlegar minningar um alla eilífð.

 

Eitt af tveimur eða þremur listaverkum eftir Hebba málara sem bárust til Svíþjóðar sem vinargjöf með Siglfirskum vinum strax eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Hverjir þetta voru (4 persónur) er ekki vitað. Mótívið er litríkt og stórkostlegt.

 

En þessi flottu listaverk  komu sem vinargjöf frá Siglfirskum vinum sem voru boðnir í heimsókn í lítið 300 manna sjávarþorp sem heitir Edshultshall á vesturströnd Svíþjóðar einhvern tíman í lok 1940 og hér þarf greinarhöfundur hjálp frá eldri lesendum sem mögulega minnast þess hverjir voru Hafnarvörður / Tollstjóri og Sænskur „konsult“ á SIGLÓ á þessum árum.

Það er mér gleðiefni að hafa dottið í lukkupottinn og fengið að koma í heimsókn til Tore og Ulla Gustafsson og í þetta fallega hús í Edshultshall þar sem síldarsaga Siglufjarðar og hans fjölskyldu hangir upp upp alla veggi.

En þetta kom allt uppúr spurningu frá Tore í fyrra haust en þá sagði hann:

“Getur verið Jón að þú vitir eitthvað um Íslenskan listamann sem heitir: HERBERT ?”

 

Alf TORE og ULLA Margareta Gustafsson í stofunni heima í Edhultshall. Listaverkin frá Sigló í bakgrunninum eru “stofustjásn” hússins.

 

Já…. og þá fékk ég nú aldeilis ástæðu til að minnast Hebba málara og annars fólks sem er mér kært.

Hebbi og Gunndóra í stofunni heima á Háveginum, listaverk á öllum veggjum og Hebbi með grallarasvip….. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson Herbert Sigfússon f. 18. maí 1907, d. 19. júní 1984 og Gunndóra Jóhannsdóttir f. 31 janúar 1919, d. 28. september 2005.

 

Sextugur í dag: Herbert Sigfússon málarameist. Sigluf.

MBL. 18 maí 1967.

“Herbert er maður smekkvís og listfengur. Er það ekki aðeins að hann sýndi þá eiginleika í verkum sínum í iðngrein sinni, heldur fæst hann einnig við gerð landslags mynda og annarra málverka. Bera þau vott vandvirkni og snyrtilegs handbragðs.

Maðurinn sjálfur er einnig snyrtimenni hið mesta, hár, íturvaxinn og fríður sýnum. Skyldi engan gruna, að hann væri kominn á þennan aldur, heldur miklu fremur, að þar færi fertugur maður þar sem hann er.

Herbert er glaðlyndur maður, fyndinn og skemmtilegur í viðræðum og hefur óvenju glöggt auga fyrir öllu sem skoplegt er. “(E.I.)

 

Flestar af mínum eigin minningum um Herbert Sigfússon, Hebba málara og konuna hans koma gegnum vináttu hans og afa Péturs Bald sem var ekki bara afi minn…..  hann var minn besti vinur fram í rauðan dauðan.

En ég get ekki að því gert að dragast líka inní margar aðrar minningar þar sem hún Gunndóra mín var alltaf svo ótrúlega góð við mig. Ég skil það kannski betur núna því þau hjónin eignuðust aldrei eigin börn en Hebbi átti son úr fyrra sambandi sem heitir Arnar Herbertsson og sá maður er að mínu mati einn sá allra besti listmálari sem Ísland hefur að geyma í dag.

Eins og sjá má á þessu stórkostlega listaverki hér undir. Síðan er hér mjög svo merkilegt og fræðandi viðtal við þennan snilling og þar fyrir utan fullt af ljósmyndum af verkum Arnars:

HÚS&HILLBILLY Arnar Herbertsson.

Listaverk eftir Arnar Herbertsson. Ljósmyndari óþekktur ?, ljósmynd lánuð frá Örlygi Kristfinnssyni.

 

Það sem var og er enn svo sérstakt við Siglufjörð er sú ótrúlega flóra af menningaratburðum og allskyns listsköpun sem finnst þar. Sumir segja að þetta komi úr þeirri einangrun sem fólkið í firðinum býr við, að langir vetrar skapi vilja og tíma fyrir listsköpun og þennan Siglfirska anda:

Æi..við gerum þetta bara sjálf, ekkert að vera að panta eitthvað menningardrasl að sunnan…..hehe.


Glæsileg sviðsmynd sem Hebbi málaði fyrir Leikfélag Siglufjarðar, myndin er líklega tekin í gamla Sjómannaheimilinu sem stóð við Suðurgötu 14 held ég.
HPB sendi inn upplýsingar 05. mars 2009. Galdra-Loftur. Frá v: Þórarinn Hjálmarsson, Guðbjörg Þorvaldsóttir og Jón Kjartansson Sviðsmynd eftir Herbert Sigfússon, (Hóladómkirkja) þótti einstaklega vel gerð.


 

Ég vill samt meina líka að það sem var svo ótrúlega sérstakt við Siglufjörð og síldina að fólk sem var listalagt dróst þangað vegna möguleikanna í innviðum síldarhöfuðborgarinnar. Þ.e.a.s. að geta þar og bara þar unnið sér inn góðan aur á sumrin og síðan lagt allan sinn tíma í það sem maður í rauninni vildi vera…… Listmálari, leikari, rithöfundur, tólistarmaður o.fl.

Þessi SEGUL-fjörður dró til sín allskyns snillinga.

Siglufjörður var t.d. líklega lengi vel eini staðurinn á landinu þar sem fjöldi tónlistamanna hafði það sem atvinnu að skemmta og spila í hljómsveitum alla daga vikunnar. Slíkt var ekki til staðar í Reykjavík….. þú getur gleymt því.

Málarameistari og lærlingar. Aftari röð: Bjarni Málari og Gósi Málari. Fremri röð: Reynir Málari, Hebbi Málarameistari og Arnar List-Málari. Upplýsingar frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar: Neðri röð frá vinstri : Reynir Árnason, Herbert Sigfússon og Arnar Herbertsson. Efri röð frá vinstri : Halldór Kristinsson og Bjarni Þorgeirsson. Ljósmyndari Kristfinnur Guðjónsson

 

Ég held t.d. að afi Pétur hafi flutt til Siglufjarðar frá Dalvík ekki bara vegna atvinnumöguleika heldur líka vegna áhuga hans á leiklist og söng og hér á Sigló fengu þeir hæfileikar hans að blómga í áratugi með verkamannastörf og sjómennsku sem illt en nauðsynlegt hliðarspor fyrir listasköpunarlífið sem hann í rauninni vildi lifa.

Pétur Friðrik Baldvinsson leikari. ATH.  Mjög svo glæsileg sviðsmynd ! Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.


„Listaklíkan á Vetrarbrautinni“

Ég minnist þess vel úr barnæsku og á unglingaárum hvað ég fékk mikið með mér út í lífið frá litla rauða húsinu við Vetrabrautina, var þar daglega og hljóp meira að segja í heimsókn úr frímínótunum í barnaskólanum sem er þarna varla 50 m norðar.

“Bútamenn”  við viðgerðir á litla rauða húsinu við Vetrarbrautina. Gamla góða Æskulýðsheimilið í bakgrunninum. Ljósmyndari Steingrímur Kristinsson.

 

Svo minnist ég líka að það voru þarna oft skemmtikvöld og gleðisamkomur, allskyns listhneigt fólk var þarna og það var setið lengi við að spjalla, syngja og semja bæjar-revíutexta, velja lög og rífast um og ákveða hvaða leikrit ætti að setja upp næst.

Það er ekki það að þarna hafi verið samankomið hámentað listafólk en brennandi áhugi og miklir hæfileikar þessa fólks dró það saman. Flestir voru verkamenn/konur, húsmæður, málarameistarar, kennarar, sjómenn og fl.

Þarna voru Hebbi og Gunndóra oft sem og Hafliði Guðmundsson og Þura konan hans, Björn Dúason, Jónas Tryggvason og Dúna konan hans og Hinrik Aðalsteinsson svo einhverjir séu nefndir, allt saman mjög svo skemmtilegir karakterar og listhneigt fólk.

Stundum kom ég í heimsókn á föstudagskvöldi og svo aftur á laugardagseftirmiðdegi og þá voru þeir enn að semja og syngja en dömurnar voru farnar heim fyrir löngu.

Krúttleg mynd af henni elsku Gunndóru minni með köttinn sinn. Ljósmyndari:Kristfinnur Guðjónsson.

 

Hér koma lánuð kveðjuorð frá Brynju Stefásdóttur en hún er systurdóttir Gunndóru og þessi fallegu orð lýsa henni vel:

“Henni varð ekki barna auðið, en kött einn átti hún til margra ára og þótti sérlega vænt um hann. Til marks um það er, að þegar hann dó var hann settur í kistu og Nýja testamenti með honum og hann jarðaður með viðhöfn í garði þeirra hjóna á Siglufirði.
Einnig var hún góð við önnur dýr, og gaf fuglunum mat í vetrarhörkum.

Nú þegar Gunndóra er farin rifjast upp minningar frá liðnum dögum. Hún var alltaf tilbúin að hjálpa öðrum, hún vildi öllum vel.”

Systurnar: F.v. Baldvina Jóhannsdóttir, Gunndóra Jóhannsdóttir og Kristrún Jóhannsdóttir. Fyrir framan, Brynja Stefánsdóttir. Ljósmyndari Kristfinnur Guðjónsson

 

Ég hef séð mörg litaverk eftir Hebba málara og þau hafa byrst mér á hinum ólíklegustu stöðum, eins og t.d. var eitt verk selt með gömlu Rafstöðinni þegar henni var breytt í sumarbústað.

En hann var nú fyrst og fremst málarameistari með eigið fyrirtæki og allir hans lærlingar í gegnum árinn fengu líka þetta „Málari“ viðurnefni ævilangt.

Þegar ég spurðist fyrir um hvort að Herbert hafi farið í einhvern listaskóla þá fékk ég að heyra þessa sögu og ég sel hana ekki dýrara en ég keypti hana en sagan er svolítið týpískt fyrir Hebba og hans glaðlynda, litríka og víðsýnda persónuleika.

“Bær í Landssveit” heitir þetta vatnslitaverk eftir Herbert Sigfússon. Í einkaeign hjá Bjarna Málara.

 

Sagan segir að Hebbi hafi verið ákveðin í því að komast í myndlistnám í Kaupmannhöfn og hann byrjaði að vinna eins og bersekkur og lagði undan væna summu. En hann vildi samt ekki skella sér aleinn út í þetta stóra ævintýri svo hann fékk með sér annan listalagðan ungling,  apótekarason minnir mig sem hét Birgir Schiöt og bundust þeir böndum að fara út  næsta vor. Þegar nær dregur „guggnar“  Biggi á þessu öllu og hoppar af á síðustu stundu.

Hebbi sem var komin með tvo farmiða og allt,  lét þetta ekki á sig fá og bauð með sér góðum vin og fóru þeir til Köben og skemmtu sér konunglega fyrir allan farareyrin í stórborginni Kaupmannahöfn….. í tvær vikur.”

Skemmtileg mynd frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar. Allt mögulegt til þar. Bíllinn er einn af fyrstu Traböntunum sem kom til Íslands 1963.

 

Persónulega finnst mér verk Hebba tala til mín, sterkir litir einkenna verk hans og það er eins og það sé nýbúið að rigna í öllum hans verkum, bláa sterka norðlenska ljósið eykur litaskerpuna og hann sér þetta sama og ég sé í mínum ljósmyndum.

Og kannski er það hreinlega þannig að ástæðan fyrir litadýrð húsa á Siglufirði var og er eins og hún er enn í dag.

Nefnilega að skærir litir gera sig best í þessu fallega skæra bláa Sigfirska ljósi sem umleikur fjöll og haf í firðinum fagra alla daga ársins.

Vík í Haganesvík. Hebbi málaði þetta litríka verk á pappa. Í eigu afkomenda Sigurjóns Jóhannssonar ( Budda skipstjóra ) Ljósmyndari: Kristín Sigurjónsdóttir

 

Og hér koma svo nokkrar myndir frá Kristjönu Arnarsdóttur en hún er afabarn Hebba. Hér eru myndir af vatnslitaverkum og líka af hvað ég held sé handmálað „betrekk“ en hann var mikið fyrir sterka liti.

Í húsinu á Hólavegi 10 er allt meira og minna óbreytt frá þeim tíma sem Hebbi, Gunndóra og kötturinn góði áttu heima þar.

 

 

Sólarlag á Sigló séð með augum Hebba Málara. Ljósmynd frá Kristjönu Arnarsdóttur.

 

Vatnslitaverk með sterkum litum. Ljósmynd frá Kristjönu Arnars.

 

“Betrekk” líklega handmálað af Hebba ?? Ljósmynd frá Kristjönu Arnarsdóttur.

 

Og að lokum ein alveg dásamlega falleg frá æskuvinkonu minni henni Auði Helenu Hinriksdóttur.

ATH. Mörg eldri verk eru merkt HERBERT, seinni tíma verk oft með HS og ártali en mörg eru ekki merkt en kannski stendur eitthvað af upplýsingum á bakhlið. 

 

Í næsta kafla fer ég í göngutúr um heimahaga með Tore um Edshultshall og hann segir mér frá Oskar pabba sínum og farbror Frans og bátunum Rudolf og Dollar sem eru eins og oft vill verða með báta og skip að þeir verða alltaf eins og eigin lifandi persónur þegar maður tala um þá.

Dollar endaði t.d. sína ævi sem skátaskemmtiskip hjá Skátahreyfingunni í Stockholm og síðan var hann seldur til Þýskalands og hann er þar enn í notkun.

Rudolf hinsvegar var seldur 1961 og það var frægur ríkur ónefndur sænskur greifi sem var mikil ævintýramaður sem keypti hann og það var víst meiningin að sigla á Rudolf til Suður Ameríku og finna falið Inkagull.

Rudolf LL 491 með allt klárt fyrir reknetaveiðar á Grímseyjarsundi.

 

Oskar tók í höndina á greifanum þegar hann seldi bátinn sinn og sagði í kveðjuskyni.

„Til hamingju með góð kaup en ég vona að þú finnir ALDREI þetta Inkagull“

Og svo varð það…. og Rudolf grotnaði niður og endaði í votri gróf einhverstaðar við strendur Svíþjóðar þar sem hann þekkti sig ekki. Sorglegt örlög fyrir svona góðan og sögufrægan bát.

„Snipp, snapp, snut, nu är denna delen av sagan om Hebba slut”

Aðrar sögulegar greinar og ljósmyndasyrpur eftir sama greinarhöfund er hægt að finna á siglo.is. og trolli.is.
Sjá lista hér undir:

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 HLUTI.

SÍLDARSAGA FRÁ 1943: SILFUR HAFSINS Í KLONEDYKE NORÐURSINS

SÍLDARSAGA: UMSKIPUNARTÚR VIÐ ÍSLAND 1946

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

SIGLFIRSK ÞAKKLÆTISKVEÐJA FRÁ ÚTLANDINU

FLUGSAMGÖNGU FRAMFARA SAGAN SEM HVARF ! “LANDIÐ ÞAR SEM ALLT ER Í HÁALOFT – INU”

DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM

SKANDINAVÍSK LANDLEGA Í MÁLI OG MYNDUM

Á LEIÐ TIL ÍSLANDS

100 ÁRA AFMÆLI! GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA, 7 HLUTI, SIGLFIRSKT ! 80 MYNDIR,GREINASERÍA

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI! 1 HLUTI

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI 2 HLUTI

FERÐASAGA: SIGLFIRSK SÍLDARSAGA Í SMÖGEN OG KUNGSHAMN. 25 MYNDIR

MINNINGAR UM SÍLDVEIÐAR VIÐ ÍSLAND 1946-48.

SAGAN UM SVANINN! SÍLDVEIÐAR, LANDLEGA OG SLAGSMÁL O.FL. Á SIGLÓ 1935

DE SEGLADE FRÅN TJÖRN…….TIL SIGLÓ. (50 MYNDIR)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. Á HEIMASLÓÐUM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA! 

SIGLFIRÐINGAR, SÍLD OG SAKAMÁLASÖGUR Í FJÄLLBACKA

STÓRKOSTLEG KVIKMYND FRÁ 1954 FUNDIN

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / SÆNSK MYNDASYRPA FRÁ 1945

SIGLUFJORDUR ER NAFLI ALHEIMSINS OG SILLENS CLONDYKE (MYNDIR OG MYNDBAND)

KÆR KVEÐJA.

NONNI BJÖRGVINS

LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TRÖLLI.IS FINNUR ÞÚ HÉR.

Aðrar heimildir um síldveiðar Svía og Norðmanna við Ísland:

DRIVGARNSFISKET VID ISLAND PÅ 1900-TALET

BOHUSLÄN VAR LANDETS SILLCENTRUM

SILDEFISKET VED ISLAND (DEL 1) NORSK SÍÐA.

SILDEFISKET VED ISLAND (DEL 2)

ÞÝÐING, TEXTI OG LJÓSMYNDIR:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
AÐRAR LJÓSMYNDIR ERU BIRTAR MEÐ LEYFI FRÁ LJÓSMYNDASAFNI SIGLUFJARÐAR OG FRÁ BYGGÐARSAFNINU Í EDSHULTSHALL O.FL.