Siglufjörður Ljósmyndir / Photographs 1872-2018……og 60 kg af sólskini.

Mér finnst eins og að ég ókristinn maður hafi eignast nýja Siglfirska biblíu, (tvær reyndar, kem að hinni seinna) bók sem ég mun lesa og skoða aftur og aftur í áratugi, sýna öllum mínum vinum, börnum og barnabörnum sögu Siglufjarðar hér í útlandinu og bæta við eigin sögum út frá myndunum sem eru svo sannarlega velvaldar og útskýrðar á dásamlega velskrifuðu Siglfirsku tungumáli.

Og ég veit nú þegar að heimafólk sem og brottfluttir elska þessa bók.

Stórkostlegt framtak hjá ykkur Anita Elefsen, Steinunn M Sveinsdóttir og Örlygur Kristfinnsson sem og hjá öllum öðrum sem komu að þessari útgáfu og inngangsorð Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar eru yndisleg og svo Siglfirsk og sönn.

Sendi ykkur jólakveðjur og þakklæti fyrir liðið ár og ekki síst fyrir þessa dásamlegu jólagjöf með fallegri kveðju frá ykkur.

Þvílíkur fjársjóður sem til er á ljósmyndasafni Siglufjarðar með sínar næstum 200.000 ljósmyndir sem í sama manneskjulega stíl og sjálft Síldarminjasafn Ísland segir sögu fólksins í firðinum og heldur henni lifandi..

Sýnir okkur horfin hversdagsleika, gleði og sorgir alþýðufólks liðins tíma. 

Hér er sko ekki verið að eyða orðum eða filmu á kónga og höfðingja

Það gleður mig líka persónulega að á bls. 133 er ljósmynd sem ég fann hér úti í Svíþjóð í mínu síldarsögubraski sem hefur gefið mér sem og öðrum vinaáttubönd við útlendinga sem kunna á sinn eigin hátt þessa sömu sögu.

Þeim þykir líka vænt um þennan „Segul-fjörð“ sem dró þá til sín með sínu síldarsegulstáli í áratugi á síðustu öld.

Úr efnisyfirliti bókarinnar Siglufjörður ljósmyndir 1872-2018

 

Og talandi um Segulfjörð sem er dulnefni Siglufjarðar í bókinni „60 kíló af sólskini“  eftir Hallgrím Helgason þá fékk ég hana í jólagjöf en ég gat ekki stillt mig og reif upp pakkann og er nú meira en hálfnaður með þessa ótrúlegu sögu þar sem „aðkomumaður“ skrifar skáldsögu þar sem mér líður eins og að ég sé fæddur og uppalinn í sögunni hans um ættingja mína frá Siglufirði, Siglunesi og í Héðinsfirði og í öðrum fjörðum umkringdum fjöllum sem ég á persónulega í huga mér og hjarta.

Þessi bók er gjörsamlega búinn að gleypa mig með húð og hári, ég týni tíma og rúmi og auðvitað verður maður að vera bæði aðkomumaður og stórskáld eins og Hallgrímur til þess að geta skrifað svona sögu því ef þú værir sjálfur fæddur þarna myndirðu týna sjálfum þér í sögunni, fjörðunum, fjöllunum, sjónum og snjónum.

Ekki vita hvar/hvernig/hvenær sagan ætti að byrja eða enda.

Reyndar segir ein aðalpersónan í bókinni: “maður er ekkert týndur ef maður veit sjálfur hvar maður er”

Þó held ég að skáldið hafi týnt sér aðeins í upphafi og ekki endilega ætlað að skrifa svona mikið um hákarlatímabilið, en einhversstaðar verður góð saga að byrja…….

Í upphafi var hákarl og síðan kom síld…..gerist ekki betra.

En Hallgrímur er kannski ekki allra þegar hann lýsir fyrrverandi fátækt og eymd sinna landsmanna á sama raunsæja hátt og Halldór vinur minn Laxness gerði í mörgum af sínum meistaraverkum. Íslendingar eru þannig gerðir að þeir eru fljótir að gleyma og hlýðnir sínu yfirvaldi og vilja heldur sjá þessa fátækt fortíðarinnar í hillingum með biblíusögulegu ívafi með fórnfýsi og fátækt sem heiðarlega kristilega dygð.

En rétt eins og Halldór þá verður Hallgrímur allra þegar hann fær flott útlensk verðlaun fyrir að skrifa sanna Íslenska menningarskáldsögu og elskaður af öllum þegar hann er dauður.

Takk Hallgrímur Helgason fyrir að minna okkur á að Sigló er ennþá nafli alheimsins og betri bókajóla er ekki hægt að óska sér. Ég er í megrun og hef lofað sjálfum mér að ekki borða of mikið af jólakonfekti en ég er saddur nú þegar af orðum Hallgríms sem eru augnakonfekt og ég bíð eftir meiru frá þér Hallgrímur,  þú ert vonandi ekki búinn með þessa sögu….. eða hvað ?

Síðan skola ég þessu öllu niður í gegnum augun með dásamlegri ljósmyndasögu frá Síldarminjasafni Íslands og mér líður eins og að þetta séu bestu jól sem ég hef upplifað í áratugi og ekki er það verra að hafa fengið nýtt Sænskt/Siglfirskt barnabarn og honum á ég eftir að segja margar sögur um fjörðinn fagra.

Sendi ykkur öllum Siglfirskar jóla og þakklætiskveðjur og eins og amma Nunna sagði alltaf…….bless bless og þúsund kossar.

Lifið heil.

Kær kveðja.

Nonni Björgvins

LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON FINNUR ÞÚ HÉR.

TEXTI OG ljósmyndir:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON