Samnorrænu strandmenningarhátíðinni er lokið sem og Þjóðlagahátíð, hversdagsleikinn tekinn við og allir bæjarbúar og gestir sem tóku þátt farnir heim með skemmtilegar minningar, bátar, skip, músíkantar og hátíðartjöld horfin úr firðinum rétt eins og í gamla daga þegar landlegu lauk þegar að það birti til.

Það sem gerir þessa strandmenningarhátíð svo sérstaka eru hin sterku norrænu tengsl við Siglufjörð, en fullyrða má að Siglufjörður sé eini staðurinn á landinu þar sem allar norrænu þjóðirnar hafa átt sín spor. Hér voru Norðmenn, Danir, Finnar, Svíar og Færeyingar við síldveiðar og tóku þátt í uppbyggingu staðarins og síldariðnaðarins.

En eitt var skilið eftir og mun standa uppi það sem eftir er sumarvertíðarinnar en það er sænska farandsýningin “Á LEIÐ TIL ÍSLANDS”

Anita Elefsen byrjaði með að kynna stutt söguna um tilurð þessarar sýningar og talaði um þessi merkilegu samskipti sem Norðurlandabúar höfðu hér á Siglufirði í áratugi á síðustu öld.

Þessi sögusýning var formlega opnuð í úthellisrigningu kl. 12.00 fimmtudaginn 5. júlí við Síldarminjasafn Íslands. Þetta er sögusýning sem segir okkur sögu sem við Íslendingar vitum kannski ekki svo mikið um, en hún fjallar um síldveiðar sænskra sjómanna við Íslands strendur þar sem farið var í þriggja mánaða túra og síldin söltuð um borð í stórum skútum. Söguna um að Svíar voru stærstu síldarkaupendurnir í áratugi þekkjum við vel, þeir keyptu oft um 50 % af öllu sem var saltað í landi á Siglufirði og þáttur Svía í þróun vinnsluaðferða og gæðaeftirlits var stór og þeirri sögu er gerð greinargóð skil á  Síldarminjasafninu.

Jón Björgvinsson segir nokkur orð fyrir hönd stjórnar félgasins “Bohusläns Islandsfiskares ekonomiska förening” og minnti á að veðrið væri passandi opnun þessarar sýningar því það var oftast bræla og bilanir um borð sem dró inn sænsku bátana sem oftast láu hlið við hlið við hina svo kölluðu Sænsku staura þarna beint fyrir framan Síldarminjasafnið. Jón minnti einnig á að í ár eru liðinn 50 ár frá því að síðustu sænsku bátarnir fóru á síldveiðar við Íslandsstrendur. Þeim lauk formlega sumarið 1968.

Sem einn hluti af þessari samnorrænu strandmenningarhátíð var komið á samstarfi milli Síldarminjasafnsins á SiglufirðiBohuslän Museum,  Bohusläns Islandsfiskares ekonomiska förening og Byggðasafninu í  Skärhamns (De seglade för Tjörn) í Svíþjóð um uppsetningu sögusýningar um síldveiði sænskra sjómanna við Íslandsstrendur og flestir ef ekki allir af þessum 9.000 sænsku sjómönnum sem tóku þátt í þessum veiðum í áratugi á síðustu öld komu í landlegu á Siglufirði.

Þetta samstarf skapaðist upp úr forvitni Siglfirðingsins Jóns Ólafs Björgvinssonar um síldveiðisögu (Reknetaveiðar og söltun um borð i fraktskútum) vesturstrandar Svíþjóðar og þau miklu samskipti sem fólk í sjávarþorpum í Svíþjóð hafði við Siglufjörð allt frá 1908 til um og yfir 1968.
Jón hefur verið búsettur í Gautaborg í tæp þrjátíu ár en hann hefur í mörg ár skrifað pistla og greinar í bæjarmiðillinn Sigló.is og er nýlega byrjaður að skrifa greinar fyrir Trölli.is.

Sofie Henryson og Pia Hanssen starfsmenn Bohusläns museum þökkuðu fyrir gott samstarf við Síldarminjasafnið og aðra sem gerðu uppsetningu þessarar sýningar mögulega.

“Það er skemmtilegt að grúska í gömlum ljósmyndum og sögum sem snerta sögu fjarðarins fagra en ég verð að segja að það allra skemmtilegasta í þessu öllu er að hitta fólk sem leggur mikið á sig við að varðveita þessa síldarsögu sem tengir okkur öll saman. “

segir Jón og bætir við: “Eins og t.d. þessa frábæru eldri herramenn í stjórn Bohusläns Islandsfiskares ekonomiska förening sem leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu við að varðveita þessa síldarsögu og ég vildi gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að nokkrir af þeim kæmu í heimsókn til Sigló í sumar svo að þeir geti fengið að sjá og upplifa aftur fegurð Siglufjarðar og allt sem tengist síldarsögunni sem er sýnt núna í flottasta safni Íslands, því fjórir af þeim hafa mörgum sinnum sjálfir tekið þátt í þessum erfiðu og áhættusömu þriggja mánaða síldveiðitúrum með söltun um borð í fraktskútum á Grímseyjarsundi. “

Þetta efnahagsfélag (Bohusläns Islandsfiskares ekonomiska förening) var stofnað 1933 í Lysekil og er saga félagsins sögð á einu af tíu spjöldum sem nú standa úti neðan við Salthúsið og það er öllum velkomið að skoða þessa sýningu endurgjaldslaust. Þegar síldin hvarf eftir 1968 átti félagið eignir sem síðan voru seldar og fjármagn sett í sjóði og alla tíð síðan hefur félagið styrkt allskyns sýningar og varðveislu heimilda um þetta merkilega ævintýri.

Jóni Björgvinssyni var í fyrra haust boðið að gerast stjórnarmaður í félaginu og þannig kom upp hugmyndin að þessi farandsýning sem hefur verið sett upp víða á vesturströnd Svíþjóðar síðustu tvö árinn myndi enda sitt ferli hér í höfuðborg síldarinnar.

Síldveiðisjómennirnir Arne Stensholmen og Bernt Bennis opna sýninguna formlega.

Sýningin heitir á sænsku:  väg mot Island – om det bohuslänska sillfisket vid Island.

Með sýningunni fylgir hljóðlaust myndband með ljósmyndum og stuttum kvikmyndum úr þessum túrum sem félagsskapurinn (De seglade för Tjörn) hefur safnað saman og í lokin kemur fullt af myndum frá Siglufirði sem sænskir sjómenn tóku í landlegum gegnum árinn.  Það er auðvitað ekki hægt að setja upp sjónvarp utandyra en þið getið séð þetta myndband hér: Sjá myndband

Fyrir utan Jón voru með í för tveir aðrir stjórnarmenn en það voru hin eldhressu ungmenni Bernt Bennis 90 ára og Arne Stensholmen sem átti 78 ára afmælisdag hér á Sigló, eiginkona Arne og síðan tveir starfsmenn Bohusläns museumSofie Henryson sýningarstjóri og Pia Hanssen sýningarhönnuður ásamt eiginmönnum þeirra.

Hinar “heimsfrægu” Síldarstúlkur Siglufjarðar sungu nokkur lög.

Þess má til gamans geta að Bernt minntist á að sumarið 1949 hafi hann 21 árs gamall komið inn á Sigló í brælu og þá átti hann rómantíska nótt með síldarstúlku sem var frá Akureyri. Hann þóttist ekki muna hvað hún hét en hann sagði að þegar þeir fóru aftur á veiðar var hann stanslaust að vonast til að það kæmi bræla aftur svo að hann gæti hitt þessa fallegu yngismey aftur. Arne minntist þess að hafa farið túra í lok 1950 þar sem síldin hélt sig mikið norðvestur af Færeyjum og var hann þá háseti á stóru skipi með risastórum vatns og olíutönkum og þeir hvorki sáu land eða komu í land í 92 sólarhringa.

Þessi sænski hópur vill koma á framfæri innilegum þakklætiskveðjum til allar bæjarbúa sem tóku á móti þeim með einstakri hlýju viðmóti og hjálpsemi í einu og öllu. Þegar þoku og rigningarsúld létti á föstudagsmorgun áttu þau ekki orð yfir þá fegurð sem blasti við þeim í logninu og blíðunni sem blasti við þeim restina af ferðinni. Að það hafði snjóað í fjallstoppana aðfaranótt föstudags var fallegt líka og góð áminning fyrir hópinn að norðurheimsskautbaugurinn “sést” vel frá útsýnisstæðinu við Strákagöng.

Fjöldi manns var við opnunina þrátt fyrir grenjandi rigningu.

Það var sko ekki málið að redda hjólastól handa Arne sem var svolítið slappur í fótunum eftir aðgerð. Séra Sigurður Ægisson prestur í firðinum fagra skrapp í fuglaskoðunartúr með einum í heilan dag og sá til að hluti hópsins kæmist í hvalaskoðun í Hauganesi sem var stórkostleg upplifun ofan á alla þá vinsemd, gleðistundir og óvæntar uppákomur sem þau áttu í skoðunarferðum sínum um bæinn. Eins og t.d. að Örlygur og Gústi Dan birtust allt í einu í blíðunni sunnan við Segul 67 og sungu fyrir hópinn eða þegar hópurinn var eina kvöldstund í Kommúnistahöllinn hjá Hrólfi rakara en þá birtist þar óvænt 10 manna hljómsveit og spilaði Balkanmúsík.

Það kvöld vildi Bernt giftast ónefndri frænku Jóns en presturinn var því miður vant við látinn á árgangsmóti.
Svona var þetta stanslaust í fjóra yndislega daga og hópurinn var sammála um að Siglufjörður er Mekka síldarsögunnar og að það sé skyldumæting fyrir alla sem hafa áhuga á þessari ævintýrasögu sem er sögð í firðinum fagra og á flottasta safninu sem þau nokkurn tíma hafa séð.

Hópurinn vill einnig skila saknaðar og þakklætis kveðjum til Anitu Elefsen og allra hennar starfsmanna í Síldarminjasafninu og til Sigurbjargar Árnadóttur formanns Vitafélagsins sem gerðu þessa ferð mögulega.

Sýningin vekur mikla athygli gesta Síldarminjasafnsins.

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson og Gunnar Smári
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir