Samþykkt miðstjórnar ASÍ um hækkun atvinnuleysistrygginga og framlengingu hlutabótaleiðar

Við þær aðstæður sem nú eru á vinnumarkaði og fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum er brýnna sem aldrei fyrr að gera umbætur á atvinnuleysistryggingum. Forða þarf fólki sem misst hefur vinnu frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi með því að tryggja afkomuöryggi þess og aðstoða við að komast út á vinnumarkaðinn að nýju. Það er gert með því að veita atvinnulausum þjónustu og tækifæri til að styrkja sig og efla hæfni sína og þekkingu og bjóða menntun og þjálfun til nýrra starfa.

Atvinnuþátttaka er mjög há á Íslandi og atvinnuleysi alla jafna lágt. Engu að síður eru atvinnuleysistryggingar hærri en víða annars staðar. Þetta afsannar þá lífsseigu kenningu að atvinnuleysistryggingar séu letjandi til atvinnuleitar. Hvergi í heiminum hefur sú aðferð að svelta fólk út af bótum skilað árangri.

Skortur á afkomuöryggi getur haft miklar langtímaafleiðingar fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem er jafnframt mjög dýrkeypt samfélagslega. Tekjufall einstaklinga hefur dómínó-áhrif á hagkerfið í heild sinni og getur leitt til þess að kreppan vegna COVID-19 verður dýpri og langvinnari en ella.

ASÍ leggur til:
1. Hækkun grunnatvinnuleysisbóta
Hækkun grunnbóta í 95% af dagvinnutekjutryggingu. Bótafjárhæð hækki úr kr. 289.510 í kr. í 318.250, þ.e. um 9,9% frá núverandi fjárhæð.

2. Tekjutengdar atvinuleysisbætur greiðist í sex mánuði
Tekjutengdar bætur verði greiddar frá fyrsta degi atvinnuleysis og í allt að sex mánuði og að hámark tekjutengingar verði hækkað í kr. 650.000.

3. Þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta lág- og millitekjufólks verði hækkað
Fyrri tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu, sem nemur nú kr. 335.000 skerði ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur.

4. Lenging bótaréttar atvinnuleysistrygginga í 3 ár
Bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði lengt úr 30 mánuðum í 36 mánuði.

5. Fjármagn til vinnumarkaðsaðgerða tryggt í fjármálaáætlun
Fullnægjandi fjármagn verði tryggt í fjármálaáætlun til næstu ára til að halda úti vinnumarkaðsaðgerðum með þjónustu, stuðningi og námstækifærum fyrir atvinnuleitendur.

6. Lög um atvinnuleysistryggingar endurspegli betur möguleika til þátttöku í virkniúrræðum
Endurskoða þarf lögin um atvinnuleysistryggingar til að mæta betur möguleikum atvinnuleitenda til að nýta náms- og önnur virkniúrræði sem eru í boði.

7. Framlenging hlutabótaleiðarinnar
Núgildandi hlutabótaleið verði framlengd til 1. júní 2021.

Sjá nánar á meðfylgjandi minnisblaði

Aðsent.