Laugardaginn 14. júlí opnar ljósmyndasýningin “Hversdagsleikur ævintýranna” á Kaffi Klöru sem Agla Egils heldur.

Agla segir meðal annars um sýninguna “Á sýningunni eru vatnslitaðar myndir þar sem ég nota einnig penna eða tréliti ofan í myndirnar. Myndefnið byggist á hugarheim ævintýra minna þar sem ég leyfi tilfinningum, væntingum, vonum og þrá að sleppa í gegn.

Ég hef alltaf verið mikið fyrir ævintýri, í raun lít ég á ævintýri sem hluti af mínu lífi, þar sem ég gleymi mér í hversdagsleikanum en hver dagur verður af litlu ævintýri.

Myndirnar segja frá tilfinningum sem ég hef stundum ekki orð yfir sjálf, þegar ég mála leyfi ég mér að gleyma stað og stund til dæmis með því að svífa um á bleiku skýi á risastórum hval, kveðja ástina eða fela mig í náttúrunni. Ævintýrin verða spegill inn í sálarlíf mitt hugsanir, væntingar, hamingja, kærleik og sorg”

Þórarinn Hannesson mun halda tónleika kl. 20.00 laugardagskvöldið 14. júlí og eru það tónleikar númer 18 í tónleikaröðinni 40 ár – 40 tónleikar. Þórarinn mun eingöngu flytja sín eigin lög, sem fyrr í þessu tónleikahaldi, en textarnir eru bæði hans eigin sem annarra.

Þórarinn Hannesson flytur frumsamin lög á Kaffi Klöru

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: úr einkasafni og af facebooksíðu Kaffi Klöru