veir útsendarar frá New York Times ferðuðust um Ísland nú fyrr í sumar og nýlega mátti lesa frásögn þeirra af ferðalaginu í netútgáfu blaðsins. Þau Jada Yuan og Lucas Peterson voru ákaflega sátt við upplifunina og segjast skilja vel nafnið á íslenska flugfélaginu Wow Air því hvað eftir annað stóðu þau sig að því að hrópa upp yfir sig -Vá!- á ferð sinni um landið.

Jada Yuan segist hafa vitað við hverju mátti búast fyrir sína fyrstu heimsókn til Íslands en ekkert jafnist á við að heimsækja landið – bara aksturinn frá Keflavíkurflugvelli hafi verið líkastur því að vera staddur á annarri plánetu þakinni mosa og þoku. Þau Juan og Peterson lögðu áherslu á það í ferð sinni að heimsækja lítt þekktari ferðamannastaði Íslands og ef marka má lesturinn þá var það einkum sú upplifun sem stóð upp úr.

Hér á Norðurlandi vestra dásama þau heimsókn í Kolugljúfur aðeins fimm mínútna akstur frá þjóðvegi 1, stuðlaberg sem þau skoðuðu mínútugang frá bílastæði í Hofsósi og síðast en ekki síst fara þau fögrum orðum um reiðtúr sem þau fóru í með henni Lukku (Arnþrúðar Heimisdóttur) í Langhúsum í Fljótum.

Alla jafna er frásögn Yuan og Peterson mjög jákvæð og það kemur sennilega ekki á óvart að það sem þau kvarta helst undan er dýrtíðin á Íslandi en þau benda engu að síður á nokkrar ágætar leiðir til að spara peninginn. Ef einhverjir hafa áhuga á að kynna sér nánar frásögnina þá er hægt að smella hér.

Frétt: Feykir.is