Útgáfutónleikar

Tónlistarmaðurinn ungi Kári Egilsson, þekktur sem KÁRI, heldur tónleika í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll (áður NASA) 11. maí klukkan 21. Á tónleikunum verða leikin lög af plötu Kára, Palm Trees in the Snow, en einnig ný lög sem hafa orðið til nú síðla vetrar og í vor.

Mikill fjöldi tónlistarmanna kemur fram á tónleikunum. Kári og hljómsveit hafa æft stíft að undanförnu en hana skipa Ívar Andri Klausen gítar, Magnús Þór Sveinsson hljómborð, Friðrik Örn Sigþórsson bassi og Bergur Einar trommur.

Að auki aðstoðar hornaflokkur við flutninginn ásamt strengjasveit. Allar útsetningar eru eftir Kára.

Salurinn sem hefur verið endurgerður í fyrri mynd er hinn glæsilegasti og verður án efa lyftistöng fyrir lifandi tónlistarflutning.

Miða á tónleika Kára má fá á tix.is og á tónleikastað ef einhverjir verða eftir.


Aðsent