Eins og fram hefur komið á Trölla.is hafa þjónustuaðilar og áhugasamt fólk tekið sig saman um að endurvekja Síldarævintýrið á Siglufirði um verslunarmannahelgina. Lítið fjármagn er fyrir hendi til að standa fyrir hátíðinni og er hún því hugsuð með öðru sniði en fyrri Síldarævintýri. Munar þar mestu um að ekki verður stórt svið í miðbænum heldur verður dagskráin samansett af mörgum smærri viðburðum, innan dyra sem utan.

Er grunnhugmyndin að sýna allt það öfluga menningar- og mannlíf sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða og að gestir hátíðarinnar geti upplifað skemmtilega viðburði á hverju götuhorni í miðbænum og víðar.

Hátíðin mun standa frá fimmtudegi til sunnudags, 1. – 4. ágúst, og eins og sjá má á dagskránni er áhersla lögð á að þetta sé fjölskylduhátíð þar sem allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Líkt og svo oft áður á Síldarævintýrum munu heimamenn bera hitan og þungan af því að skemmta gestum en einnig er von á þjóðþekktum skemmtikröftum.

Síldarævintýrið er komið á fésbókina og er hægt að fylgjast með fréttum af dagskrá hátíðarinnar þar. Trölli.is mun einnig flytja fréttir af gangi mála og vera með fréttaflutning frá Síldarævintýrinu um verslunarmannahelgina.