Samsýning Guðmundar Óla Pálmasonar og Sigurðar Mar Halldórssonar í Mjólkurbúðinni á Akureyri 19. – 28. febrúar 2021.

Föstudaginn 19. febrúar opna Guðmundur Óli Pálmason og Sigurður Mar Halldórsson sýninguna Óljóst landslag í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu  á Akureyri

Á sýningunni eru um tuttugu ljósmyndir þar sem listamennirnir nálgast landslagið á nýstárlegan hátt en með aðferðum sem byggja á gamalli hefð. Allar myndirnar eru teknar á filmu og unnar á margvíslegan hátt.

Guðmundur Óli Pálmason lærði listræna ljósmyndun við University of the Arts í  London. Viðfangsefni hans er hin grófgerða og oft drungalega náttúra Íslands en þó sneiðir hann hjá hefðbundnum mótífum landslagsljósmyndara. Eyðibýli eru Guðmundi hugleikin og þannig verða myndirnar einskonar konar minning um draum eða fortíð, sem þó aldrei var. Guðmundur vinnur eingöngu með útrunnar, svokallaðar peel-apart filmur, sem eru sjaldgæf tegund af Polaroid filmum. Síðan vinnur hann með filmurnar með ýmsum efnum og prentar svo á álplötur. 

Sigurður Mar Halldórsson lærði ljósmyndun í Gautaborg á árunum 1988-1990. Hann hefur síðustu ár glímt við aftengja ljósmyndina við raunveruleikann; þá hugmynd að ljósmynd eigi alltaf að skrásetja veruleikann eins og hann blasir við okkur eða frysta augnablik í eilífðinni. Þannig verða ljósmyndir hans óhlutbundnar eða samansafn af fleiri en einu augnabliki á hverri mynd. Hann notar einfaldar og frumstæðar myndavélar og myndirnar verða því býsna langt frá stafrænni ofurskerpu nútímans.

Þannig sækja þeir báðir innblástur frá gömlu handverki og tækni liðinna tíma. Myndefni þeirra beggja er íslensk náttúra og þó að verkin séu ólík nálgast þeir viðfangsefnið á svipaðan hátt og skapa með því óvenjuleg verk miðað við það sem gengur og gerist í landslagsljósmyndun.

Sýningin Óljóst landslag verður opnuð föstudaginn 19. febrúar kl 17. Daginn eftir kl. 15 verður listamannaspjall í Mjólkurbúðinni en annars opið 14-17. Síðasti sýningardagur er sunnudaginn 28. febrúar

https://marason.is/     https://www.instagram.com/kuggurart/

https://kuggur.com/   https://www.instagram.com/marason64/

Mynd/ Guðmundur Óli
Mynd/ Sigurður Mar