Líkt og fram kom á blaðamannafundi heilbrigðisráðherra fyrir stundu verður sett á fjögurra vikna samkomubann á landinu frá 15. mars þ.e. aðfaranótt mánudags. Frekari útfærsla kemur fram í auglýsingum sem verða birtar síðar í dag.

Stjórnendur í Fjallabyggð taka nú stöðuna og munu í framhaldi miðla upplýsingum og eftir atvikum leiðbeiningum.

Aðgerðum þeim sem kynntar voru á nýliðnum blaðamannafundi er ætlað að draga úr faraldrinum og með því minnka álag á heilbrigðiskerfið.

Vert er að taka skýrt fram að enn hefur ekki verið staðfest smit á Norðurlandi.

Ég vil biðla til íbúa Fjallabyggðar að sýna almenna skynsemi í öllum samgangi fólks og gæta þess að fara í öllu að fyrirmælum fagfólks. En um leið vil ég óska þess að þið kæru íbúar gætið þess að hætta ekki að lifa lífinu og stunda þá iðju sem veitir hverjum og einum ánægju.  

Kæru íbúar, gerum okkar besta í stöðunni, verum skynsöm og gætum hvert að öðru.

Frekari fréttir þegar líður á daginn.

Elías Pétursson,  bæjarstjóri Fjallabyggðar