Fyrir um tveimur og hálfu ári síðan kom gestur inn á Kaffi Klöru til að fá sér kaffi. Gesturinn var spænsk kona að nafni Goretti Eugenio García sem var á ferðalagi umhverfis Ísland og tóku þær Ida Semey eigandi Kaffi Klöru tal saman.

Kom þá í ljós að þær voru báðar spænskukennarar, Ida í Ólafsfirði og Goretti á Spáni. Áður en þær kvöddust eftir langt spjall ákváðu þær að fara saman í Erasmus sem er samevrópskt verkefni á vegum ESB. Þær sóttu um styrk á vegum verkefnisins og fengu.

 

Goretti Eugenio García spænskukennari

Ida Semey spænskukennari

 

Í framhaldinu settu þrír skólar sig í samband og núna 19.-25 september er hér staddur nemendahópur frá framhaldsskólum á Ítalíu og Spáni sem taka þátt í samstarfsverkefni í MTR. Erasmus K2 verkefnið er kallað “Towards empowerment and sustainability of young people” og fjallar um hvernig er hægt að stuðla að aukinni valdeflingu ungs fólks til eigin atvinnusköpunar.

Mikilvægur partur af verkefninu eru nemenda skipti og fór hópur nemenda og kennara frá MTR í mjög vel heppnaða ferð til Lanzarote í febrúar.

Hluti af íslenska hópnum á Lanzarote

 

Núna koma 12 nemendur frá Ítalíu og 13 nemendur frá Lanzarote auk kennara og munu nemendur gista í heimahúsum á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík.

Nemendur kynna sér hvernig ferðamálum og málum tengd þeim er háttað í hverju landi fyrir sig og eiga að koma með viðskiptahugmyndir um hvað væri hægt að gera í framhaldi af því sem þau sáu og upplifðu, hvort sem það er hér eða í eigin heimalandi. Meðan á dvölinni stendur eiga nemendur að vinna að kynningum í formi videó sem er tekið upp hér á svæðinu og verða einskonar blanda af “glöggt er gests augað”.

Linda Lea Bogadóttir Markaðs- og menningarfulltrúi að fræða ungmennin um Fjallabyggð

 

Við höfum búið til dagskrá þar sem nemendur fara um Tröllaskaga, safna efni og upplifa hvað er í boði. Einnig verður farið í hvalaskoðun, smakkað á hákarli og til stendur að heimsækja hestabúgarð. Ferðinni lýkur með heimsókn til Forseta Íslands á Bessastöðum 24. september.

Farið var í myndarallý um Ólafsfjörð. Þemað var „hvað er til staðar og hvað vantar í bænum?“ Tilgangurinn að kynnast staðnum og taka myndir. Þær eru hráefni til listrænnar sköpunar og frásagna. Gerð eru tveggja til þriggja mínútna löng vídeómyndbönd. Hér má sjá fyrsta myndbandið.

 

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir/úr einkasafni
Vídeó: MTR