Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, sveitarfélögin Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagabyggð, Skagaströnd og Skagafjörður, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra ásamt ungmennafélögunum USAH, USVH og UMSS hafa ákveðið að vinna saman gegn ofbeldi, öðrum afbrotum og að bættri þjónustu fyrir jaðarsetta hópa undir heitinu Öruggara Norðurland vestra.
Undirrituð var samstarfsyfirlýsing þess efnis í félagsheimilinu á Blönduósi 20. mars sl. en þá fór fram fyrsti samráðsfundur verkefnisins. Á fundinum voru verkefni einstakra samstarfsaðila kynnt auk þess sem fluttar voru kynningar ýmissa aðila sem starfa að málaflokknum.
Áherslur verkefnisins fyrstu mánuðina verða farsæld barna og ungmenna, ofbeldi í nánum samböndum og einstaklingar í viðkvæmri stöðu. Þá var skipað framkvæmdateymi um verkefnið í heild sinni ásamt því að tilnefndir voru verkefnastjórar áhersluverkefna.
Sjá samstarfsyfirlýsingu um Öruggara Norðurland vestra.
Markmið Öruggara Norðurlands vestra eru:
- Auka markvisst þekkingu á málaflokkum samstarfsaðila, á afbrota- og forvarnarvinnu á Norðurlandi vestra, og á þeirri þjónustu sem verið er að veita borgunum í landshlutanum af hendi mismunandi samstarfsaðila á nýjungum og þjónustu í málaflokknum.
- Styrkja undirstöður til framtíðar fyrir svæðisbundið samstarf til framtíðar gegn ofbeldi og öðrum afbrotum.
- Efla samvinnu við úrlausn mála, ásamt því að efla samstarfsaðila í að takast á við málefni jaðarsettra hópa, ofbeldi og önnur afbrot.
- Vinna í takt við önnur verkefni í þágu almannaheilla á Norðurlandi vestra, svo sem innleiðingu farsældar barna, lýðheilsuvísa, áætlanir sveitarfélaga o.fl.
Mynd/af vefsíðu Húnaþings vestra