Tónlistarmiðstöð og Rannís auglýsa eftir umsóknum vegna úthlutunar úr nýjum Tónlistarsjóði árið 2024. Umsóknarfrestur er til og með 12. desember nk.

Hlutverk Tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði. Sjóðurinn skal stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis.

Í þessari úthlutun verður hægt að sækja um verkefni sem falla undir tvær deildir skv. reglum um Tónlistarsjóð, annars vegar Lifandi flutning og hins vegar Þróun og innviði. Veittir eru bæði stakir verkefnastyrkir og langtímasamningar til tveggja eða þriggja ára.

Undir Lifandi flutningi eru veittir styrkir til tónleikahalds innanlands og markaðssetningu á tónleikahaldi innanlands. Undir Þróun og innviðum er hægt að sækja um styrki fyrir tónlistarhátíðir og tónleikastaði en í þessari úthlutun verður EKKI hægt að sækja um sprotaverkefni eða viðskiptahugmyndir.

Styrkir úr Tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til eins árs í senn. Að jafnaði er hvorki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna eða viðburða sem þegar hafa átt sér stað.

Hafi umsækjandi þegið styrk úr Tónlistarsjóði þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis til að ný umsókn komi til greina, það sama á við um verk í vinnslu þá skal umsækjandi skila inn greinargerð um stöðu verksins.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur falið Rannís að sinna fyrstu úthlutun Tónlistarsjóðs fyrir hönd, og í samvinnu við Tónlistarmiðstöð. Upplýsingar og umsóknargögn er að finna á tonlistarsjodur.is. Umsóknum og lokaskýrslum skal skila á rafrænu formi.

Umsóknarfrestur er til og með 12. desember 2023 kl. 15.00.

Sjá nánar: 

Tónlistarsjóður.is

Ný tónlistarlög 33/2023