Þann 10 .október sl. frumsýndi Leikfélag Sauðárkróks hið geysivinsæla leikrit Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Eysteins Ívars Guðbrandssonar. Gaman er að greina frá því að uppselt var á fyrstu fimm sýningarnar áður en leikritið var frumsýnt, en það er í fyrsta skipti sem slíkt gerist.
Leikritið fjallar í megindráttum um heim þar sem börn leika fullorðna og fullorðnir leika börn. Fylgst er með Guðmundi, 7 ára dreng, sem á því miður fáa vini. Einn daginn birtist Finnur, strákur úr bekknum hans, heima hjá honum og býðst til þess að vera vinur hans en aðeins ef Guðmundur samþykkir að fela Finn heima hjá sér og segja engum frá því. Skiljanlega verður uppi fótur og fit þegar barn hverfur og ýmis fleiri vandamál eru rædd útfrá sjónarhorni barnanna í þessu skemmtilega leikriti, ekki bara fyrir krakkana heldur þau fullorðnu líka.
Leikhópurinn er að þessu sinni með breytt aldursbil, allt frá börn niður í 9 ára og upp úr. Það er gaman að segja frá því að það eru heil 52 ár á milli þeirra yngstu og þess elsta. ,,Það eru 16 börn af 24 leikurum í sýningunni sem er mjög hátt hlutfall, en þau hafa staðið sig eins og rokkstjörnur í gegnum tímabilið og halda því áfram á sýningum” segir Saga Sjöfn formaður LS.
Næstu sýningar:
- 7 sýning: Laugardaginn 18. október
- 8 sýning: Sunnudaginn 19. október
- 9 sýning: Þriðjudaginn 21. október
- Lokasýning: Miðvikudaginn 22. október
Miðasala í síma 849-9434.
Mynd/af vefsíðu Skagafjarðar