Á morgun laugardaginn 7. desember kynnir Páll Baldvin Baldvinsson nýútkomna bók sína Síldarárin 1867-1969 í Bátahúsi Síldarminjasafnsins. Kynningin hefst kl. 11:00.
Í bókinni er magnaðri og mikilvægri sögu síldaráranna gerð skil í margradda frásögn síldarstúlkna og spekúlanta, aflakónga og ævintýramanna. Auk þess prýða verkið á annað þúsund ljósmyndir sem flestar koma nú fyrir almenningssjónir í fyrsta sinn. Þetta er saga um svipult gengi, auðsæld og skort, um rómantík og harma, þrældóm og frelsi; saga sem allir ættu að þekkja.
Páll Baldvin Baldvinsson er bókmenntafræðingur og menningarrýnir. Hann hefur áður meðal annars sent frá sér stórvirkið Stríðsárin 1938–1945 sem varð metsölubók. Síldarárin 1867–1969 er afrakstur áralangrar vinnu hans við söfnun ljósmynda, endurminninga og annarra heimilda.
Bókin verður á sérstöku kynningarverði, 12.990 kr. – en almennt útsöluverð í Bókabúð Forlagsins er 15.990 kr.
Kaffi og léttar veitingar í boði – harmonikkuleikur og söngur. Allir velkomnir!