Það var í byrjun nóvember í fyrra sem forsvarsmenn Play kynntu áform sín um stofnun nýs íslensks lággjaldaflugfélags. Þá var ætlunin að hefja flugrekstur strax í byrjun þessa árs en þau áform gengu ekki eftir og ljóst má vera að aðstandendur verkefnisins prísa sig sæla fyrir það í dag. Heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir hefur nefnilega lamað allar flugsamgöngur og stjórnendur flugfélaga róa nú lífróður.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum vefmiðilsins Túristi.is býður Play nú átekta með að taka fyrstu flugvélina í notkun en ef samgöngur væru með eðlilegum hætti þá gæti félagið tekið til starfa nú þegar.
Play hefur samkvæmt sömu heimildum svigrúm til að skala sig upp hratt því aðstæður á flugmarkaði í dag eru þannig að félagið getur fengið nokkurn fjölda nýlegra Airbus A320 Neo með tiltölulega litlum fyrirvara.
Heimild og mynd: Túristi.is