Það var einstaklega góðmennt á gömlu-dansa-ballinu sem menningarfélagið í Húnaþingi vestra stóð fyrir s.l. föstudagskvöld í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka. Þetta var í annað sinn sem félagið sér um slíkan dansleik.

Hljóðfæraleikararnir voru fanta góðir á sviðinu, en þeir sem fram komu voru Marinó Björnsson, Skúli Einarsson, Sigurður Ingvi Björnsson, Sveinn Kjartansson, Þorvaldur Pálsson, Björn Pétursson, Benedikt Jóhannsson og Ragnar Leví.

Gestirnir stóðu sig sérlega vel á dansgólfinu og nutu þess að skrafa saman þegar hlé voru gerð á tónlistinni. Stjórn menningarfélagsins stóð vaktina í lúgunni og bauð upp á kaffi og heimalagaðar pönnukökur.


Sjá fleiri myndir á síðu Menningarfélagsins: Hér