Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilíkumajónesi

  • 900 gr þorskur
  • 5 kúfaðar matskeiðar af hveiti
  • 2 egg
  • 150 gr brauðrasp
  • 1-2 pressuð hvítlauksrif
  • nokkrir stönglar af fersku rósmarín
  • Sítróna, skorin í báta

Sætir kartöflubátar

  • 2 stórar eða 4-5 litlar sætar kartöflur
  • 1-1,5 tsk reykt paprika
  • salt
  • pipar
  • ólívuolía

Basilíkumajónes

  • 4 basilíkustönglar
  • maldonsalt
  • 2 kúfaðar matskeiðar majónes (Hellmans Light)
  • safi af 1/2 sítrónu

Hitið ofninn í 200°. Skrúbbið eða afhýðið sætu kartöflurnar og skerið þær á lengdina í 8 báta. Leggið bátana í eldfast mót og veltið þeim upp úr ólívuolíu og kryddunum. Bakið í ofninum í 35-40 mínútur.

Takið fram 3 skálar. Setjið hveiti í fyrstu skálina og kryddið með salti og pipar (ég notaði Jamie Oliver saltið með sítrónu og timjan, mjög gott). Hrærið eggin og setjið í aðra skálina. Í þriðju skálina setjið þið brauðraspinn. Veltið nú þorskbitunum fyrst upp úr hveitiblöndunni, síðan hrærðu eggjunum og að lokum brauðraspinum.

Hitið ólívuolíuna við miðlungshita á pönnu og bætið hvítlauknum og rósmaríngreinunum í olíuna. Þetta er gert til að bragðbæta olíuna. Þegar hvítlaukurinn byrjar að krauma er þorsknum bætt á pönnuna. Steikið þorskinn í nokkrar mínútur á hvorri hlið, þar til hann fær fallegan lit.

Fjarlægið stöngulinn frá basilíkulaufunum og leggið laufin í mortel ásamt maldonsalti. Notið mortelið til að mauka laufin. Bætið majónesi og sítrónusafa út í og blandið vel.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit