Hrím var að hluta til stofnuð upp úr Stormum. Gestur og Árni höfðu verið þar lengst af og Rúnar einnig dágóðan tíma. Kristján og Magnús Þormar höfðu hins vegar aldrei verið í neinum hljómsveitum áður. Kristján sagði mér að þegar Gestur hefði beðið sig að koma í hljómsveitina, hefði hann haft miklar efasemdir um að það gengi. Hann vissi ekkert um hvort hann gæti yfirleitt eitthvað spilað og svo átti hann heldur engin hljóðfæri. Hann fékk þó lánaðan bassa og prófaði, þetta lukkaðist merkilega vel og þar með var hann orðinn hljómsveitarmeðlimur. Hrím æfði fyrst í stað í húsnæði verkalýðsfélagsins Vöku við Gránugötu, en síðar meir í Allanum þar sem þeir spiluðu mikið. Æfingarnar voru vel skipulagðar, t.d. æfðu gítararnir fyrst saman sér, trommur og bassi sér og síðan söngur og raddir sér. Eftir þetta var allt æft saman, og þessi aðferð reyndist okkur ágætlega. Orgelleikarinn Magnús Þormar hættir þó fljótlega og er enginn ráðinn í hans stað. Eitt aðalsmerki Hrím var hinn ótrúlega samhenti gítarleikur þeirra Árna og Gests. Á þessum tíma þótti engin hljómsveit meðal hljómsveita sem ekki hafði umboðsmann. Í upphafi var Theodór Júlíusson umboðsmaður en síðan tók við af honum Kristján L. Möller.
Árið 1969 tók Kristján inntökupróf um vorið ásamt í “Mynd og hand” og komst þar inn. Þá lá því fyrir hjá honum að hætta að spila og hann seldi allar sínar græjur. En um verslunarmannahelgina þetta ár ákvað hann að skella sér í Húsafell og það gerðu hinir Hrímararnir líka. Þetta átti í upphafi bara að vera til skemmtunar, en það fór svolítið á annan veg.
“Þeir spurðu mig hvort ég væri ekki til í að vera með þó svo að ég væri eiginleg hættur” sagði Kristján, “því það væri hljómsveitarkeppni í Húsafelli. Auðvitað var það í góðu lagi, en ég átti bara engan bassa lengur. Þeir fullvissuðu mig um það væri ekkert mál að fá lánaðan bassa, og í framhaldinu var unglingahljómsveitin Hrím frá Siglufirði skráð til þátttöku”.
Það var ákaflega vænn og prúður piltur sem lánaði Kristjáni bassann sinn. Sá hét Pétur Kristjánsson, síðar m.a. í Pops, Svanfríði, Pelican, Paradís og Póker.
Og Hrímararnir voru kosnir “Besta unglingahljómsveitin ´69” með fullu húsi stiga frá dómnefndinni, og þá þurfti að spila aftur, og nú á stóra sviðinu. Þá var komið upp sama vandamálið og áður þ.e. bassaleysið. Í þetta skiptið bjargaði Rúnar Júlíusson málunum, en hin nýstofnaða Trúbrot var aðalhljómsveitin í Húsafelli 1969.
Menn minnast þess stundum ennþá að þegar Hrím steig á svið laumaðist einn úr hljómsveitinni sem veitti siglfirsku unglingasveitinni hvað harðasta samkeppni um toppsætið, til að kippa öðru söngboxinu úr sambandi. Það mun hafa sést til kauða, því var komið aftur í samband eftir nokkra takta og Hrímararnir meikuðu það feitt í Húsafelli.
Bítlarnir eða Stones, Trúbrot eða Ævintýri, Hrím eða Max.
Ég veit ekki hvort hægt er að segja að það hafi verið háð hörð bárátta um bestu bitana á ballmarkaðinum milli Hrím og Max á síðustu árum áratugsins. Og þó, það örlaði aðeins á því minnir mig. Að minnsta kosti svona stundum. Önnur hljómsveitin verður þó að teljast hafa haft talsverða yfirburði hvað varðar spilamennsku, en hin gerði kannski meira út á léttmetið sem alltaf seldist og skilaði sínu alveg ljómandi vel.
Lengst af var Max skipuð þeim Rabba Erlends, Sverri Elefsen, Stjána Hauks og Óla Ægis. Til að byrja með spilaði Hjálmar Jóns á orgel og Siggi Hólmsteins kom í stuttan tíma inn fyrir Stjána Hauks.
Ballið í Allanum.
Hrím og Max þar sem þær héldu sameiginlegan risadansleik í Allanum og árið var 1969. Í það minnsta var hann svo fjölsóttur að sagt var að veggirnir í húsinu hafi grátið sveittum tárum allt fram á næsta dag. Nokkuð var um að hörðustu aðdáendur hvorrar hljómsveitar fyrir sig mynduðu raddkór og hrópuðu nöfn þeirra, klöppuðu og stöppuðu taktfast á dúandi gólffjölunum. Allt fór þó fram í anda ævintýrisins góða þar sem öll dýrin í skóginum voru orðnir vinir í sögulok. Ballið var vel heppnað í alla staði og allir héldu eftir það glaðir heim til sín eða einhvers annars. Þetta var undanfari endalokanna hjá þessum frábæru hljómsveitum því allt hefur víst sinn vitunartíma.
Það var auðvitað ekki með öllu laust við að það örlaði lítillega á hrepparíg í bænum og hver hljómsveit átti sína fylgjendur sem eltu hana nánast hvert sem hún fór, rétt eins og tónlistaráhugamenn voru oftar en ekki annað hvort með Stones eða Bítlunum. En næsta kynslóð var að vaxa upp úr lággróðrinum, hímir fyrir utan ballstaðina og æfingahúsnæðin. Hún leggur eyra að hurð eða vegg, hlustar með áfergju á átrúnaðargoðin og getur vart beðið eftir að fá tækifæri til að stíga sín fyrstu spor á poppbrautinni. Það má því alveg fylgja með í sögunni að sá sem þetta ritar hékk einmitt fyrir utan Alþýðuhúsið um kvöldið þegar Hrím og Max spiluðu saman og hafði ekki aldur til komast inn, því var nú fjandans ver.
Af Max er það að segja að Rabbi gekk til liðs við Gautana, fyrst aðeins sem söngvari, en tók einnig fljótlega við af Jómba sem trommari þegar sá ágæti maður flutti suður. Sverrir tók sér nokkurra mánaða hlé, en varð einn af þeim sem endurreistu Hrím eftir áramótin 69/70 Óli Ægis flutti fljótlega suður en Stjáni Hauks lagði gítarinn á hilluna eins og sagt er ef frá er talinn stuttur tími með Enterprise í Sjallanum við Grundargötu.
Kristján Jóhanns sem hætti reyndar upp úr miðju sumri 1969, hóf nám í “Mynd og hand” og gerðist í framhaldinu myndlistakennari, en Guðmundur Ragnarsson þá aðeins 16 ára gamall tók við bassanum síðustu vikurnar sem hlómsveitin starfaði að sinni. Gestur tók við gítarleikarasöðunni í Töturum, en Rúnar og Árni endurreistu Hrím með Sverri Ellefsyni og Magnúsi Guðbrandssyni árið eftir og spiluðu fram á haustið 1970. Eftir það hélt Rúnar á vit Reykvískra örlaga sinna en Árni erlendis til framhaldsnáms.
Leó R. Ólason.
Heimildir: Magnús Guðbrandsson, Árni Jörgensen, Kristján Jóhannsson, Alþýðublaðið, Morgunblaðið og Siglfirðingur.