Hljómsveitin Frum í Nýja Bíó hjá vini okkar Oddi Tór að safna fyrir bágstadda Vestmannaeyinga. Ljósmyndina tók Björn Sveinsson

Safnað fyrir Vestmannaeyinga.
Aðfaranótt 23. janúar 1973 hafði ég sofnað út frá útvarpinu en glaðvaknaði þegar fréttir hófust allt í einu um miðja nótt. Eldgos á Heimaey. Var þetta eitthvert furðulegt grín, ótrúlega raunverulegur draumur eða blákaldur veruleikinn? Ég var nokkra stund að átta mig á því að þarna væri allt í alvörunni því á gömlu gufunni sem þá var eina útvarpsrásin, var sjaldan mikið grín í gangi. Jörðin hafði rifnað í verstöðinni Vestmannaeyjum og logandi eldstólpar teygðu sig til himins. Hraun flæddi og síðar byrjuðu eitraðar gufur að leggjast yfir bæinn. Þriðjungur bæjarins grófst undir hraun og ösku og ljóst var að margir þurftu aðstoðar við. Við fundum til samkenndar með löndum vorum hinum megin á Íslandskortinu og málið var rætt á næsta hljómsveitarfundi. Jú, við skyldum ganga á undan með góðu fordæmi og safna saman liði sem væri sammála okkur að því leiti að eitthvað þyrfti að gera og það strax. Ég talaði við Odd Thorarinsen þann ágæta mann og bað hann um að fá leigðan bíósalinn. Hann spurði að sjálfsögðu hvað stæði til og ég sagði honum að við í hljómsveitinni Frum vildum halda tónleika með það að markmiði að safna einhverjum aurum fyrir Vestmanneyinga. Þá kostar salurinn ekki neitt svaraði Oddur að bragði og andlitið á honum varð allt í einu alveg rosalega alvarlegt. Ég talaði við fleiri og ennþá fleiri. Allir voru að sjálfsögðu til í að gera allt sem í þeirra valdi stóð því málstaðurinn var óumdeilanlega góður. Eftir nauðsynlegan undirbúning var skemmtunin síðan auglýst og haldin í bíóinu fyrir næstum því fullu húsi. Eftir helgina þegar ég mætti á skrifstofu bæjarfógeta til að gera upp söluskattinn vegna skemmtunarinnar, tók þáverandi gjaldkeri á móti mér með svolítilli ræðu þar sem hann lofaði framtak okkar strákanna og sagði það jafnframt fullkomlega óeðlilegt að ríkissjóður væri í þessu tilfelli eini aðilinn sem hagnaðist.

25% söluskattur af þetta mörgum miðum gera…

Jæja mættu ekki fleiri?

Hann glotti flírulega og ég velti því fyrir mér eitt augnablik hvort ég ætti að hafa góða samvisku eða slæma vegna skilanna á söluskattinum.

“Þetta er bara fínt svona”.

Kvittunin var handskrifuð eins og alltaf var gert í þá daga, gjaldkerinn rak síðan stimpilinn af afli ofan á blaðið og málið var dautt frá hans bæjardyrunum séð.

Í framhaldinu lá leið mín út á Hvanneyri því presturinn okkar var náttúrulega í forsvari fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar á Siglufirði.

Halló Akureyri, hér komum við – aftan í dráttarvél.
Sumrin 1972 og 1973 spilaði hljómsveitin Frum aðra hverja helgi í Allanum á Akureyri eins og áður sagði. Þetta var góður tími og yfirleitt mjög góð mæting, en þetta var eini staðurinn á Akureyri þar sem haldin voru sextán ára böll.

Það var snemma sumars 1972 á föstudegi að við hlóðum hljóðfærunum í bílinn síðla dags og lögðum af stað til Akureyrar. Lágheiðin var enn lokuð vegna snjóa og bleytu, svo við urðum að fara Öxnadalsheiðina. Allt gekk vel og okkur miðaði vel áfram þangað til í Hörgárdalnum þar sem bíllinn hægði ferðina smátt og smátt og stöðvaðist að lokum úti í kanti. “Pissustopp,” sagði einhver og allir þustu út nema Guðni. Hann sat hljóður undir stýri um stund og fór svo að reyna að starta en bíllinn tók ekki við sér. “Fyndinn,” sagði ég, fullviss um að hann væri eitthvað að stríða okkur. Það tók hljómsveitarmeðlimi smástund að átta sig á að hér var bláköld alvara á ferð. Bíllinn fór alls ekki í gang, sama hvað við gerðum og jafnvel þótt við opnuðum vélarhlífina og horfðum á vélbúnaðinn með ógnandi augnaráði. En við höfðum ekki staldrað lengi við þegar bjargvætt okkar bar að, akandi á rauðum Zetor. Við veifuðum honum og hann stoppaði. “Geturðu nokkuð dregið okkur til Akureyrar?” Við útskýrðum fyrir ökumanni Zetorsins tilgang ferðar okkar og hversu mikilvægt það væri að við kæmumst tímanlega á áfangastað. Þetta var ótrúlega auðsótt mál, við bundum bílinn aftan í traktorinn og svo var ekið af stað á 27 km. hraða.

Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar við renndum í hlaðið fyrir framan Allann og hópur ballgesta tók á móti okkur með fagnaðarlátum sem hreinlega aldrei ætlaði að linna.

“Frá hvaða bæ eruð þið?” Þessari athugasemd var tekið fagnandi af hópnum.

“Spilið þið sveitatónlist?”

Gleðin byrjaði utan við dyrnar á Allanum í þetta skiptið, en þetta voru annars fínir krakkar sem hjálpuðu okkur með hljóðfærin inn á pall, fóru svo og keyptu sig inn á ballið því nú var það var óhætt þar sem hljómsveitin var mætt. Ég spurði ökumann Zetorsins hvað ég skuldaði honum fyrir “dráttinn” en hann leit á úrið og svo á mig. “Tólfhundruðog fimmtíu slétt” sagði hann eins og leigubílstjóri sem les á mælinn. Mér datt í hug hvort það væri algengt að hann bjargaði aðkomuhljómsveitum síðasta spölinn til Akureyrar og notaðist þá við sérstakan hljómsveitabílataxta. Ég greiddi uppsett gjald og þakkaði honum fyrir vel og lengi og horfði svo á eftir honum leggja í hann til baka á 27 km. hraða. Þegar Zetorinn var horfinn fyrir næsta horn birtist Dabbi vinur okkar. Hann hafði verið á Siglufirði fyrir nokkru síðan að vinna við að fleyta Rauðkutönkunum fram af hafnarbryggjunni ásamt bræðrum sínum og föður og hékk þá oft ásamt fleiri krökkum á æfingum hjá okkur í Sjallanum. Ég sagði honum frá vandræðum okkar og hann opnaði bílstjórahurðina renndi hendinni bak við svissinn, fann þar lausan vír og stakk honum í samband. “Startaðu nú” sagði hann og hló mikið. Ég settist upp í og startaði og viti menn, bíllinn hreinlega datt í gang og malaði blíðlega eins og vel vaninn heimilisköttur sem fær rjóma í skálina sína.

Stórdansleikur í Dynheimum.
Það var eina helgina þetta sama sumar að hljómsveitin var alveg verkefnalaus. Hvergi var hægt að komast inn til að spila og ég hringdi í hvern húsvörðinn á fætur öðrum en hvergi voru svörin eins og ég hefði viljað heyra þau.

Á Ketilási voru Gautarnir að spila og þess vegna ekki góður grundvöllur fyrir balli í Ólafsfirði. Á Dalvík fékk ég þau svör að um helgina yrði haldið þar ættarmót af stærri gerðinni og væri gert ráð fyrir á annað hundrað manns í mat alla helgina auk þess sem salurinn myndi verða notaður að hluta sem svefnpokapláss.

Í Freyvangi var verið að sýna leikrit, öll leiktjöld og munir voru á sviðinu og það væri allt of mikið mál að pakka því niður fyrir eitt ball auk þess sem það væri sýning á laugardagskvöldið.

Í sveitinni inn af Akureyri er Laugaland og þegar ég talaði við húsvörðinn þar sagði hann mér að það ætti að lakka gólfið um helgina og því plani væri ekki hægt að breyta.

Í Allanum hjá henni Ragnheiði vinkonu okkar var einhver ráðstefna og hún hélt að einhver harmónikuhljómsveit ætti að spila gömlu dansana á eftir.

Það fór að verða fátt um fína drætti og ég gerði mér nú grein fyrir því að Ingimar Eydal yrði eins og venjulega í Sjallanum en þar fyrir utan var hvergi nokkurs staðar dansleikur á Eyjafjarðarsvæðinu sem var mjög sérstakt. Þetta yrði skrýtin helgi og við yrðum bara að nýta okkur ástandið.

Grenivík! Ekki var það óskastaðurinn en ég hringdi nú samt þangað en fékk þá að vita að húsvörðurinn var einhvers staðar suður í Reykjavík og það var enginn sem gat sagt neitt hvað þá tekið ákvarðanir í fjarveru hans.

Ég var alveg í öngum mínum, þetta var allt að fara úr böndunum og mér fannst ég vera í svipaðri aðstöðu og asninn sem eltir gulrótina alveg endalaust en mun aldrei ná henni. Ég sagði strákunum frá tilraunum mínum á þriðjudagskvöldi með hálfgerðum uppgjafartón.

En Dynheimar? Einhver varpaði fram þessari óvæntu hugmynd. Jú það er til staður sem heitir Dynheimar og er rekinn sem félagsmiðstöð en ég hef aldrei heyrt að það væru böll þar. Það mátti svo sem hringja í Dynheima og það var gert strax morguninn eftir. Ég talaði við þann sem veitti húsinu forstöðu en hann taldi fráleitt að halda unglingaball þar, það hafði verið reynt nokkrum sinnum en mæting var sáralítil í hvert einasta skipti. Ég sagði honum þá að það væri hvergi dansleikur á gjörvöllu Eyjafjarðarsvæðinu og krakkarnir hefðu ekki í nein hús að venda og nálægasti dansleikur við Sjallann væri á Ketilási í Fljótum. Honum þótti þetta svolítið merkilegt en leist samt ekki vel á hugmyndina. Ég hélt samt áfram að reyna að sannfæra hann um að þetta gæti alveg gengið og að lokum gaf hann sig og ég sendi honum auglýsingaplaköt síðar þennan sama dag með flóabátnum Drang. Á laugardeginum vorum við mættir inn við Dynheima um áttaleitið. Við stilltum upp og spjölluðum við manninn sem sagði okkur að hann hefði þrátt fyrir að hafa gefið eftir, ekki hafa nokkra trú á kvöldinu. Þetta hefði bara einfaldlega aldrei virkað og hann sæi ekkert í spilunum sem segði að það myndi eitthvað frekar gerast núna.

Unglingadansleikurinn hófst stundvíslega klukkan tíu og það var eitthvað af krökkum sem biðu við dyrnar og borguðu sig strax inn á þrjúhundruðkall og svo komu fleiri. Þegar aðeins var farið að líða á kvöldið sáum við að það var engu líkara en krakkarnir hreinlega flæddu inn um dyrnar og um miðnættið var nánast orðið ólíft í húsinu. Þar var svo troðfullt sem það gat frekast orðið og jafnvel rúmlega það. Að dansleik loknum þegar allir voru farnir og við búnir að pakka saman fór ég og hitti húsvörðinn.

“Jæja, var þetta ekki bara í góðu lagi?”

Hann horfði á mig og hristi höfuðið og sagðist ekki skilja neitt í þessu. Þá mundi ég að það hafði alveg gleymst að ræða kaup okkar og kjör. Ég spurði vandræðalega hvernig uppgjör færi fram á þessum bæ, en hann leit á mig aftur og endurtók að hann skildi ekki neitt í þessu öllu saman. Svo rétti hann mér þykkasta búnt af hundraðköllum sem ég hef nokkru sinni séð og sagði að þetta hefði komið inn.

“Bærinn borgar alla reikninga hér svo það eru engir kostnaðarliðir, en þið hefðuð alveg mátt koma með einhvern til að selja miðana.”

Svo hristi hann höfuðið aftur og ítrekaði það sem hann hafði þá þegar nokkrum sinnum sagt. Við talningu á hundraðkallabunkanum kom í ljós að þetta gæti alveg verið það ball sumarsins sem gæfi hvað mest í aðra hönd. Þegar við yfirgáfum svo staðinn, stóð hann í dyrunum og veifaði en horfði í leiðinni á okkur eins og við værum einhverjar geimverur.

Svo hristi hann höfuðið einu sinni enn og gekk inn.

Leó, Gummi Ingólfs, Biggi og Gummi Ragnars. Þarna var Guðni farinn og Gummi Ragnars kominn í staðinn. Myndin er tekin í Sjallanum á Sigló 1973 og ljósmyndari er Róbert Guðfinnsson

Endurnýjunin og kúvendingin.
Um haustið varð algjör kúvending hjá okkur því við hreinlega hentum hverju einasta lagi út af efnisskrá okkar og æfðum upp nýja frá grunni. Ástæðan var sú að við fórum á ball með gleðisveitinni Haukum með penna og blað að vopni og hreinlega skrifuðum niður hvert einasta lag sem þeir fluttu þarna um kvöldið og daginn eftir héldum við fund um málið þar sem var ákveðið að taka upp þessa nýju gleði og singalong poppstefnu. Þessi nýja lína þrælvirkaði og var salurinn í litla Sjallanum heima á Sigló stundum í svo miklu stuði að loftið og veggirnir hreinlega grétu sveittum tárum yfir öllu saman. Þessi sveifla var í gangi um land allt og við vildum taka þátt í henni og höfða í leiðinni til breiðari aldurshóps. Við steinhættum því að spila Jethro Tull, Deep Purple og þess háttar eðalrokk en þess í stað átti Anna í Hlíð upp á pallborðið hjá okkur ásamt Stínu sem var lítil stúlka í sveit, og í beinu framhaldi af öllu saman var svo sungið um hina rauðu sokka rabbarbarans. Ekki fannst okkur öllum þessi breyting vera til bóta en það gekk óneitanlega betur að selja sig. Þegar þarna var komið sögu segir Guðni Sveins okkur að hann muni hætta í bandinu fljótlega því hann og kærastan eigi von á erfingja, þau taki sambandið mjög alvarlega og það fari bara ekki saman að spila í hljómsveit og byggja upp fjölskyldu. Þetta þóttu okkur slæm tíðindi því Guðni var og er fyrirtaksdrengur í alla staði, þægilegur í umgengni, hreint ótrúlega metnaðarfullur og hörkuduglegur ef eitthvað þurfti að gera. Það kemur samt yfirleitt maður í manns stað og annar prýðispiltur fyllti skarðið. Það var Guðmundur Ragnarsson sem hafði verið að spila í ýmsum hljómsveitum undanfarin ár. Um vorið 1973 gerðum við aftur sams konar samning við Ragnheiði á Allanum og spiluðum á Akureyri aðra hverja helgi út þetta sumar en við urðum að rokka okkur talsvert upp frá því sem hafði verið um veturinn.

Eftir því sem leið á árið fór að bera meira á einhvers konar spilaþreytu og til þess að reyna að losna við hana var stokkað upp í bandinu. Gummi gerðist bassaleikari sveitarinnar en ég keypti annað Yamaha orgel miklu stærra og flottara en hitt gamla og hef haldið mig á hljómborðsbrautinni síðan. Það var svo hinn vel spilandi Þórhallur Ben sem tók stöðu gítarleikara. Hljómsveitin hafði aldrei verið betri en svona skipuð en það dugði ekki til. Spilaþreytan sem hafði gert vart við sig skömmu áður var enn til staðar og brestirnir urðu bara verri og stærri. Það kom líka alltaf betur og betur í ljós að Þórhallur Ben þessi ágæti gítarleikari reyndist ekki eiga samleið með sumum hinna og um haustið leystist hljómsveitin upp. Hún hætti þó aðeins í örfáa daga því hún var endurreist samkvæmt mikið notaðri formúlu í unglingahljómsveitabransanum sem fólst í því að það þótti alltaf mýkri lending í svona málum að hætta og byrja nánast strax aftur í jafnvel lítið breyttri mynd en að reka einhvern meðliminn.

Samsett mynd í Photoshop. – LRÓ

Hjómsveit Guðmundar.
Eftir að hljómsveitin Frum var öll, hélt hún í rauninni áfram stuttan tíma en þó án Gumma Ingólfs. Það var spilað á nokkrum böllum til viðbótar sennilega vegna þess að það vantaði hljómsveit á einhver böll og það var hringt í einhvern okkar. Nafnið sem við notuðum á bandið var “Hljómsveit Guðmundar,” eftir Gumma Ragnars en hann var reyndar alfarið á móti hugmyndinni en fékk engu ráðið um málið því meirihlutinn réði og okkur hinum fannst þetta óskaplega fyndið. Þetta var ekki beint rokkleg nafngift heldur var miklu frekar hægt að búast við að hjá hljómsveit sem héti slíku nafni væri boðið bæði upp á gömlu dansana ásamt hinum nýju svona í bland. Við hlógum okkur máttlausa af tiltækinu en viti menn, við fengum sennilega bæði miklu fleira fólk svo og mun breiðari hóp á böllin fyrir vikið. Eitt aðallagið á þessum tíma var Kodachrome með Paul Simon og það var sennilega u.þ.b. tíunda hvert lag. Gummi Ragnars söng “Komdu niður kvað hún amma” sem átti upphaflega að vera grín. Það var svo bara alltaf verið að biðja um það löngu eftir að okkur hætti að finnast þetta eitthvað fyndið og þegar upp var staðið var “Komdu niður” sennilega næst mest spilaða lagið hjá okkur.

Hljómsveit “í þoku”.
Um haustið 1974 virtist einhver þreyta komin í útgerðina hjá þessum hópi og við Birgir Ingimars skelltum okkur vestur á Ísafjörð í vinnu hjá Norðurtanganum. Ég tók orgelið með og Biggi trommusettið, nema hvað. Við tveir spiluðum gömlu og nýju dansana í eitt skipti eftir spilakvöld í kaffistofunni og eitthvað var farið að nefna meira spilerí inni Djúpi síðar um veturinn eftir það “gigg”. Um vorið hætti hljómborðsleikarinn í hljómsveitinni Náð og Örn bassaleikari í Náðinni spurði mig hvort ég vildi taka sæti hans. Það vildi ég ekki þar sem heimþráin var farin að segja til sín og við Biggi höfðum hugsað okkur að spila á Sigló um sumarið 75. Náðin hætti líka um svipað leyti og hljómsveitin Ýr var stofnuð og einhverjir meðlimir Náðarinnar enduðu að lokum í því ágæta bandi. Ég mætti á fyrsta ball Ýr í Hnífsdalnum og man að mér þótti ekki mikið til koma. Líklega byrjuðu þeir aðeins of snemma í harkinu því greinilegt var að samspilið var ekki orðið jafn gott og síðar varð. Ég heyrði svo aftur í þeim mánuði síðar og þá small allt saman. Ef ég hefði ekki fundið svona sterkt fyrir heimþránni þarna undir vorið væri ég kannski ennþá á Ísafirði, hver veit?

En nú vandast málið, því þrátt fyrir að ég sé búinn að reyna að grafa upp hvað gerðist í næsta leik og þráspyrja þá sem vitað er að höfðu aðkomu að framhaldinu, virðist hreinlega enginn muna neitt. Ekki einu sinni hvað bandið hét! Þó liggur það fyrir að annað hvort sumarið 74 eða 75, æfðum við upp hressilegt ballprógram, líklega í Æskó, og spiluðum nokkrum sinnum og þá aðallega í Allanum hjá Villa Friðriks. (Eða var Brandur kannski ennþá með húsið? Bara man það ekki frekar en svo margt annað frá þessum árum). Til er upptaka úr Allanum þar sem Birgir Eðvarðsson (Biggi Ölmu) er að syngja með mér, Gumma Ragnars og Bigga Inga, en þá vantar sennilega eitt nafn í viðbót. Það gæti hafa verið Þórhallur Ben, en þar sem heyrist á upptökunni að ég spila fullt af gítarlínum á orgelið, eru líkurnar harla litlar. Þetta er sem sagt allt saman meira og minna í einhverri þoku og því liggur kannski beinast við að við auglýsum hér með eftir sjálfum okkur frá þessum tíma.

Heimildamaður: Ég sjálfur… [Leó R. Ólason]