Stærstir í sjálfbærri framleiðslu á kítósan í heiminum
Primex á Siglufirði er forystufyrirtæki í heiminum í sjálfbærri framleiðslu á hágæða kítósan úr kaldsjávarrækjuskel. Guðný Helga Kristjánsdóttir gæðastjóri segir fyrirtækið í auknum mæli snúa sér að framleiðslu fæðubótar- og snyrtivara undir eigin nafni en verður jafnframt til framtíðar í magnframleiðslu á kítósani fyrir stóra, alþjóðlega framleiðendur.
Primex byggir á grunni siglfirska fyrirtækisins Kítín ehf. sem var meðal annarra í eigu Þormóðs Ramma. Árið 2001 keypti Kítín norskt fyrirtæki sem hét Primex, og eignaðist bæði nafnið og öll vinnslutæki. Árið 2004 bættist svo bandaríska fyrirtækið Vanson við sem tryggði stöðu Primex sem leiðandi framleiðanda kítósans í heiminum. Árið 2016 festi Primex svo kaup á vörumerkinu SeaKlear í Evrópu sem er sérstök formúla til að hreinsa sundlaugar.
Með í kaupunum fylgdi LipoSan vörumerkið og uppskriftin sem er einkaleyfisvernduð. LipoSan er fæðubótarefni sem bindur fitu í meltingarveginum og er eftirsóttasta varan sem Primex framleiðir. Fyrir kaupin á þessum fyrirtækjum hafði Primex sinnt magnframleiðslu á kítíni en í framhaldinu hófst meiri vinnsla. Árið 2004 hófst framleiðsla á kítósani og LipoSan.
3% kítín í einni skel
Starfsmenn Primex eru fimmtán talsins. Fyrirtækið hefur getu til að nýta alla rækjuskel á Íslandi sem fellur frá við pillun. Úr hverri skel fæst einungis um 3% af kítíni. Um 80% skeljarinnar er vatn og einnig er í henni að finna prótein og steinefni. Fyrirtækið notar einungis skel af tegundinni Pandalus borealis sem veiðist í Norður-Atlantshafi. Kítínið er einangrað úr skelinni og úr því framleitt efnið kítósan sem að stærstum hluta er selt á erlenda markaði og þá aðallega sem lífvirkt efni í fæðubótarefni, sárameðhöndlun, snyrtivörur og lyfjavörur. Í vísindaheiminum er kítósan oft nefnt sem undraefni framtíðar vegna margvíslegra eiginleika þess auk þess að vera náttúrulegt trefjaefni.
„LipoSan formúlan gerir það að verkum að efnið leysist upp mjög hratt í meltingarveginum. Þess vegna er hægt að taka það inn með mat. Hvert gramm af LipoSan bindur 100-150 grömm af fitu. Mannslíkaminn meltir ekki þá fitu heldur skilar hún sér út. LipoSan er þannig hannað til þess að minnka inntöku á hitaeiningum. Klínisk rannsókn staðfestir eiginleika LipoSan til þyngdarstjórnunar. Einnig hafa rannsóknir sýnt að kítósan binst auðveldlega við styttri fitukeðjur, þ.e.a.s svokallaðri slæmri fitu sem veldur gjarnan kólesterólsöfnun,“ segir Guðný.
LipoSan dreift yfir feitan mat
Primex hefur einnig hafið framleiðslu á örhúðuðu LipoSan og sótt um einkaleyfi á þeirri tækni. Hægt er að dreifa efninu beint út á matinn án þess að bragð eða duftkeimur finnist af honum. Efnið bindur fitu úr matnum þannig að hún meltist ekki í mannslíkamanum og eykur auk þess magn trefja í máltíðinni.
Hún segir heilsubótarefnið einnig stuðla að almennri heilsu í meltingarvegi og framundan eru ítarlegri rannsóknir á virkni þess. Nýlegar tilraunir hafa sýnt fram á fleiri eiginleika kítósans en áður þekktust, m.a. að auka þol og vinna gegn öldrun. Virkni gegn öldrun eru komin til vegna áhrifa kítósans á kólesteról í blóði og hjartavöðvum. Inntaka kítósans getur minnkað álag á hjarta með því að vinna gegn sindurefnum. Talið er að inntaka kítósans geti snúið við öldrunartengdri rýrnun á hjarta að völdum sindurefna og um leið verið áhrifaríkt fæðubótarefni við meðferð á aldursbundnum sjúkdómum þar sem kólesterólhækkun og oxunarálag eru helstu orsakir. Önnur rannsókn sýndi að við inntöku kítósans jókst fjöldi hvatbera í vöðvum sem skilaði auknu æfingarþoli.
Primex selur LipoSan einnig í magneiningum til stórra og þekktra framleiðenda eins og Now Foods sem eru þekktir fyrir gæði og góðar vörur, auk þess til fleiri stórfyrirtækja sem setja efnið í sínar pakkningar og selja um allan heim. Þessar fæðubótarefnakeðjur eru meðal stærstu viðskiptavina Primex.
Plástrar fyrir Bandaríkjaher
„Allar götur síðan árið 2001 höfum við þróað og framleitt virka efnið í plástra til hernaðarnota. Efninu er til dæmis komið fyrir í skotsárum þar sem það stöðvar blæðingu og heldur bakteríum frá. Bandaríski herinn og herir í öðrum löndum hafa notað þessa vöru. Sárameðhöndlunarmarkaðurinn er mjög stór og er klárlega einn af okkar mikilvægustu mörkuðum. Þar kemur hreinleiki efnisins og tæknileg þekking á framleiðslunni sér vel,“ segir Guðný.
Primex er einnig að hefja klíníska rannsókn á virkni ChitoCare sáravörunnar sem fáanleg er á Íslandi í gel- og úðaformi. Könnuð verða áhrif þess á sár sem myndast á fólki með sykursýki og sem þjáist af krónískum sárum. ChitoCare er jákvætt hlaðið og myndar filmu yfir sár á húð og slímhúð sem stöðvar blæðingu og flýtir fyrir því að sár grói og er auk þess bakteríudrepandi.
Þá selur Primex talsvert magn af kítósani til annara notkunar eins og til víngerðar, landbúnaðar og textíliðnaðar í Evrópu þar sem efninu er blandað í vefnað sem gerir föt og klæði slitsterkari auk þess að koma í veg fyrir lykt eins og t.d. í íþróttafötum. Árið 2016 festi Primex svo kaup á vörumerkinu SeaKlear í Evrópu sem er sérstök formúla til að hreinsa sundlaugar og heita potta á náttúrulegan hátt. Með því að nota SeaKlear er hægt að minnka klórnotkun um allt að 40%.
Næsti áfangi snyrtivörur
Primex hefur selt kítósan til erlendra snyrtivöruframleiðenda sem hafa notað efnið m.a. í hár – og snyrtivörur og einn af þekktustu tannkremsframleiðendum heims notar það í tannkrem.
„Við höfum nú þróað okkar eigin snyrtivörulínu sem verður seld undir vörumerkinu ChitoCare um allan heim. Fyrstu vörurnar, body lotion og body scrub, verða kynntar til leiks á stærstu heilsuvörusýningu í Evrópu „Vitafoods“ núna í maí og verða vörurnar komnar í verslanir hér á Íslandi ekki seinna en í júní. Við teljum að mikil tækifæri felist í þróun á vörum undir okkar eigin merki inn á snyrtivörumarkaðinn.“
LipoSan má einnig nota til að bæta heilsu dýra með þyngdarvandamál. Gæludýraiðnaðurinn í Bandaríkjunum veltir þrisvar sinnum meira á ári en kvikmyndaiðnaðurinn þar í landi. Það er því eftir miklu að slægjast á þeim markaði.
Gæðin skipta máli
Guðný segir talsverða verðsamkeppni meðal kítósanframleiðenda. Mikil framleiðsla er í Asíuríkjum og þar er verðið umtalsvert lægra en kítósan unnið úr kaldsjávarrækju.
„En gæðin eru heldur ekki samanburðarhæf. Í Asíu er kítósan unnið úr krabbadýrum, heitsjávarrækju eða eldisrækju sem getur innihaldið margvísleg mengandi efni eins og t.d. þungmálma og fúkkalyf. Gæðamunurinn felst í hreinleika í endanlegri afurð. Samkvæmt okkar rannsóknum þá bindur kítósan sem framleitt er í Asíu margfalt minna af fitu samanborið við okkar vöru. Markaðurinn gerir greinarmun á þessu og þess vegna höfum við náð viðskiptasambandi við stóra framleiðendur sem hafa verið lengi á markaðnum og setja gæði í fyrsta sæti. Einnig velja framleiðendur lækningatækja gjarnan okkar kítósan fram yfir annað sem fæst á markaði.“
Frétt: Fiskifréttir