Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá því að embættið hefur fengið fjárveitingu til að standa undir einu stöðugildi samfélagslögreglumanns – eða forvarnarfulltrúa, eins og þetta hét áður.

Fjárveitingin er til tveggja ára og er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess m.a. að vinna gegn ofbeldi meðal barna. Markmið aðgerðarinnar er að auka traust á lögreglu og sýnileika í samfélaginu, leysa félagsleg vandamál og ná til barna og ungmenna í viðkvæmri stöðu. Í aðgerðinni felst virkt samtal og samvinna lögreglu við þá aðila sem hafa aðkomu að málefnum barna svo sem skóla, frístundastarf og barnaverndar- og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Við höfum orðið mjög vör við ákall samfélagsins um aukna fræðslu og forvarnarstarf og er það okkur afar kærkomið að geta svarað því kalli segir á facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Nú hefur verið gengið frá því að lögreglumaðurinn Guðmundur R. F. Vignisson tekur að sér verkefni samfélagslögreglumanns og hefur hann þegar hafist handa við verkefnið. Hann mun m.a. verða í samstarfi við forvarnarfulltrúa skóla og sveitarfélaga í umdæminu og aðra samfélagslögreglumenn í öðrum umdæmum.

Forvarnarstarf lögreglu er ekki eins manns verkefni og mun Guðmundur því skipuleggja og taka þátt í forvarnarstarfi annarra lögreglumanna í umdæminu, t.d. með heimsóknum í félagsmiðstöðvar og virkara og nánara samtali við börn og ungmenni. Verkefni Guðmundar eiga síðan eftir að þróast en það er ljóst að hann horfir fram á stóran óplægðan akur verkefna á þessu sviði. Við óskum samfélaginu til hamingju með þennan áfanga og Guðmundi til hamingju með ný verkefni um leið og við óskum honum góðs gengis og velfarnaðar í þeim.

Mynd/Lögreglan á Norðurlandi eystra