Frásögn af hinum ægilegu snjóflóðum í apríl 1919 var skráð með mjög skýrum hætti af Jóni Jóhannessyni fiskmatsmanni. Vegna hennar getum við gert okkur í hugarlund hvað gerðist í stórum dráttum þegar fjögur snjóflóð urðu átján manns að bana í Hvanneyrarhreppi, síðar Siglufjarðarumdæmi. Þessara atburða var minnst með sóma og af virðingu 12. apríl síðastliðinn.

En sagan verður seint fullsögð. Ungur þýskur vísindamaður rannsakar nú eðli þessara snjóflóða, hvernig þau gætu hafa fallið og af hvaða ástæðum. Það hlýtur að teljast allsérkennilegt viðfangsefni eitt hundrað vetrum og sumrum síðar og þegar flest ummerki atburðanna eru löngu horfin. Og allt það fólk sem þekkti til og mundi atburðina er einnig horfið. En landslagið er það sama, frásögn Jóns Jóhannessonar stendur fyrir sínu og þekking manna á eðli og orsökum snjóflóða hefur gjörbreyst. Þannig að enn má væntanlega afla nýrrar þekkingar á þessum löngu liðnu atburðum.

Andrea Mayer er stúdent við Háskólann í Innsbruck í Austurríki og kom tvisvar til Siglufjarðar á þessu ári í rannsóknaskyni og er stóra viðfangsefni hennar meistararitgerð um snjóflóðin miklu í Hvanneyrarhreppi 1919 – eins og fyrr segir. Prófessor dr. Johann Strötter, hefur verið henni til halds og trausts auk þess sem hún hefur notið liðsinnis íslenskra sérfræðinga á þessu sviði. Upplýsingar sem hún aflar sér setur hún meðal annars í þrívíddar-tölvulíkan þar sem sjá má mögulegt efnismagn, kraft og hraða snjóflóðanna. Síðan ætlar hún að nota niðurstöðurnar til að bera saman við söguleg hamfarasnjóflóð í Týrólahéruðum Austurríkis, þar sem hún býr nú.

Andrea var spurð hvernig rannsóknir hennar hafi gengið í sumar.

„Ég fór víða um í ágúst og september, skoðaði dali, skálar og farvegi flóðanna. Að vísu var ég ekki heppin með veður, það rigndi oft og var lágskýjað – en þegar gott var naut ég þess mjög að fara um vettvang atburðanna í þessu fallega landslagi. Og gaman að hitta margt vinsamlegt og hjálpfúst fólk.“

Hvenær lýkur svo verkinu?

„Svona vinnu lýkur aldrei, en ég klára vonandi ritgerðina næsta haust. Er ekki viss um að koma til Siglufjarðar áður – en fari ég aftur til Íslands þá skrepp ég örugglega norður.“

 

 

Texti ÖK. Forsíðumynd: Andrea með Staðarhólshnjúka og Skollaskál í baksýn. Ljósm. ÖK
(Hin myndin:) Á blíðskapardegi – Andrea í farvegi snjóflóðsins mikla undir Skollaskál. Ljósm AM.