Matvælastofnun hefur lokið rannsókn sinni á meðferð hryssna við blóðtöku, sem fram kom í myndbandi sem dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation (AWF) og Tierschutzbund Zürich (TBZ) gerðu opinbert á vefmiðlinum YouTube þann 22. nóvember 2021. Stofnunin hefur vísað málinu og þeim gögnum sem fyrir liggja til lögreglu til frekari rannsóknar og aðgerða.
Með bréfi til ofangreindra samtaka, óskaði Matvælastofnun eftir upplýsingum um hvar og hvenær myndböndin hafi verið tekin upp auk þess sem óskað var eftir óklipptu myndefni til að nota við rannsóknina. Samtökin svöruðu með opnu bréfi þann 1. desember 2021 þar sem þau höfnuðu að afhenda óklippt efni og tilgreina tökustaði en gáfu upp tökudaga myndbandsins.
Sérfræðingar Matvælastofnunar hafa farið ítarlega yfir myndbandið og greint þau atvik sem talin eru brjóta í bága við lög um velferð dýra og metið áhrif þeirra á hryssurnar. Rannsókn stofnunarinnar leiddi ennfremur í ljós hvar atvikin áttu sér stað og hvaða fólk átti hlut að máli. Við rannsóknina leitaði stofnunin eftir skýringum og afstöðu fólksins til þess sem fram kemur í myndböndunum. Eins og áður segir hefur stofnunin ekki aðgang að óklipptu myndefni sem takmarkar möguleika hennar á að meta alvarleika brotanna og gerir stofnuninni því ókleift að rannsaka málið til fullnustu.