Þann 30. apríl komu fulltrúar allra fimm Oddfellowstúkanna á Akureyri saman og færðu Sjúkrahúsinu á Akureyri veglega peningagjöf að upphæð 1.245.000 króna til stuðnings við líknarþjónustu sjúkrahússins. Gjöfin er ætluð til að bæta aðstöðu í nýju aðstandendaherbergi á lyflækningadeild og styður við áframhaldandi umbætur í þjónustu við sjúklinga og aðstandendur.
Auk peningagjafarinnar færðu kvennastúkurnar tvær sjúkrahúsinu tvö listaverk eftir Oddfellowsysturnar Guðrúnu Lóu Leonardsdóttur og Guðrúnu Jóhannsdóttur. Verkin munu prýða nýju rýmin og auka hlýleika og notalegheit í umhverfinu.
Verkefnið er liður í innleiðingu aðgerðaráætlunar heilbrigðisráðuneytisins um líknarþjónustu til ársins 2025. Áætlunin felur meðal annars í sér að efla líknar- og lífslokameðferð innan heilbrigðiskerfisins með aukinni áherslu á sérhæfð rými og bætta aðstöðu fyrir aðstandendur. Á lyflækningadeild SAk hafa þegar verið útbúin tvö ný líknarrými og tvö eldri rými nýtt í sama tilgangi, auk þess sem aðstandendaherbergi hefur verið flutt og aðgengi bætt verulega.
Sjúkrahúsið á Akureyri lýsir miklu þakklæti fyrir stuðning og velvild Oddfellowstúkanna. Með slíkri gjöf skapast betri skilyrði fyrir aðstandendur til að vera til staðar með sínum nánustu við krefjandi aðstæður. Gjöfin er mikilvægur þáttur í því að skapa hlýlegt og virðingarvert umhverfi innan líknarþjónustunnar.
Á forsíðumynd eru þau Helgi Þór Leifsson, framkvæmdastjóri klínískrar þjónustu SAk, Hugrún Marta Magnúsdóttir, yfirmeistari í Rbst, nr 16, Laufey, Pia Maud Petersen, yfirmeistari í Rbst,, nr 2, Auður, Hafdís Hafþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á lyflækningadeild SAk, Rebekka Héðinsdóttir, aðstoðar deildarstjóri Lyflækningadeildar, Sólveig Hulda Valgeirsdóttir, deildarstjóri Lyflækningadeildar, Gestur Ragnar Davíðsson, undirmeistari St, nr 25, Rán og Guðjón Kristjánsson, forstöðulæknir Lyflækningadeildar. Á myndinni má einnig sjá málverkin eftir þær Guðrúnu Lóu Leonardsdóttur og Guðrúnu Jóhannsdóttur (Guju)
Mynd/SAk