Réttindagæsla fyrir fatlað fólk verður hluti af nýrri Mannréttindastofnun sem formlega tekur til starfa þann 1. janúar 2025. Alþingi samþykkti í júní sl. frumvarp forsætisráðherra um stofnun Mannréttindastofnunar og verður stjórn stofnunarinnar kosin eftir að þing kemur saman síðar í mánuðinum.
Meðal þess sem lögin fela í sér er að Réttindagæsla fyrir fatlað fólk færist frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og yfir til Mannréttindastofnunar. Mannréttindastofnun heyrir beint undir Alþingi og breytingarnar eru taldar tryggja betur sjálfstæði Réttindagæslunnar, enda mun nýja stofnunin meðal annars hafa eftirlit með því hvernig stjórnvöld uppfylla samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Nýju lögin fela með öðrum orðum í sér að Réttindagæsla fyrir fatlað fólk er hluti af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til 31. desember næstkomandi og verður hluti af Mannréttindastofnun degi síðar eða frá og með 1. janúar.
Eitt þeirra verkefna sem í dag heyra undir Réttindagæslu fyrir fatlað fólk mun samkvæmt nýju lögunum heyra undir sýslumenn. Það eru samningar vegna persónulegra talsmanna fyrir fatlað fólk. Frá og með 1. janúar 2025 mun fatlaður einstaklingur leita til sýslumanns við val á persónulegum talsmanni eða þegar afturkalla þarf umboð viðkomandi. Verkefnið þótti falla betur að hlutverki sýslumanns en Mannréttindastofnunar.
Mannréttindastofnun er sem fyrr segir stofnun á vegum Alþingis og mun hún auglýsa eftir réttindagæslumönnum.
Líkt og áður segir mun Mannréttindastofnun taka til starfa þann 1. janúar 2025.
Mynd/af vefsíðu Réttindagæslu fyrir fatlað fólk á island.is.