Kjötsósa

  • 600-700 g nautahakk
  • smjör
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 1 laukur, fínhakkaður
  • 1/2 dl chilisósa
  • grænmetis- eða nautateningur
  • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
  • salt og pipar

Ostasósa

  • 5 dl rjómi
  • 5 dl mjólk
  • 1 dl hveiti
  • 100 g smjör
  • 3 dl rifinn ostur
  • smá múskat
  • salt og pipar
  • ferskar lasagnaplötur
  • 2 pokar af ferskum mozzarella osti

Hitið ofninn í 180°. Steikið hakkið, laukinn og hvítlaukinn á pönnu upp úr smjörinu. Bætið niðursoðnu tómötunum, chilisósunni, teningi, salti og pipar á pönnuna og látið sjóða við vægan hita á meðan ostasósan er gerð.

Bræðið smjörið og hrærið hveitinu saman við. Hellið mjólkinni og rjómanum saman við í nokkrum skömmtum og hrærið vel á milli. Passið að hafa ekki of háan hita undir svo sósan brenni ekki. Kryddið með smá múskati, salti og pipar. Látið sjóða í nokkrar mínútur og takið svo af hitanum. Bætið rifna ostinum saman við og látið bráðna í sósunni.

Setjið smá ólífuolíu í botninn á eldföstu móti og þekið hann með ostasósu. Leggið lasagnaplötur yfir, þar næst kjötsósu, síðan ostasósu. Endurtakið eins oft og formið leyfir og endið á sósunni. Sneiðið mozzarellaostinn og leggið yfir ostasósuna. Setjið í ofninn í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er kominn með fallegan lit.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit