Umræða um laxeldi og áhrif þess á íslenskar ár hefur verið áberandi að undanförnu.

Um helgina bar fjölmiðlaumfjöllun um meintan eldislax í Haukadalsá hátt, en í ljós kom að stór hluti fiskanna reyndist vera hnúðlax. Á sama tíma fór fram gagnrýnin umræða í hlaðvarpi og meðal sérfræðinga um hvort sjónarmið í laxeldismálum hafi hingað til verið einhliða og hvort of mikið sé gert úr hættunni af kynblöndun eldis- og villtra laxastofna.

Róbert Guðfinnsson athafnamaður í Fjallabyggð fjallaði um málið í færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann gagnrýnir áróðurinn gegn laxeldi og hvetur til víðari sýnar í umræðunni.

Ofleikur eða afleikur?

Áróðurinn gegn laxeldi keyrði um þverbak um helgina þegar fjölmiðlar létu eins og náttúruhamfarir væru að eiga sér stað í Haukadalsá. Fréttir hermdu að yfir 100 eldislaxar hefðu sést í ánni — neyðarnúmer norskra kafara var dregið fram til að þeir gætu mætt og fjarlægt óvættinn. En svo kom í ljós að uppistaðan var… hnúðlax frá Rússlandi. En eldislax? Jú, einhverjir.

Þetta var einmitt á sama tíma og hlaðvarpsþátturinn “Ertu að fá’ann” fékk Jón Kristjánsson fiskifræðing í viðtal. Þátturinn er ómissandi – bráðskemmtilegur og fræðandi. Jón heldur ekki aftur af sér þegar hann gagnrýnir hagsmunaaðila laxveiða og spyr hvort ekki sé verið að ofvernda árnar. Hann bendir á örlög fisks sem veiddur er og sleppt, rökstyður að hnúðlax sem drepst nýtist sem fæði í ánni, og segir að náttúran sjái um að meðhöndla kynblöndunina – samkvæmt Darwin. Hann hefur engar áhyggjur af kynblöndun eldisfisksins við villta stofninn.

Þessi nálgun er í takt við málflutning Ólafs Sigurgeirssonar lektors við Hólaskóla sem segir eldislax í dag vera húsdýr eftir 14 kynslóða kynbætur – hann hafi einfaldlega ekki getu til að fjölga sér og dafna í náttúrunni.

Umræður um kynblöndun í Noregi byggjast á löngu liðnum tíma þegar eldislaxinn var enn villtur að hluta.

Á sama tíma og þetta á sér stað vinnur ríkisstjórnin að “Atvinnustefnu Íslands: Vaxtaplan til 2035.” Þar er ljóst að útflutningstekjur þurfa að aukast. Sjávarútvegur hefur líklega náð hámarki: humar, hörpudiskur, rækja, loðna og úthafskarfi – horfnir eða í lægð. Þorskstofninn er brothættur og makrílveiðar í óvissu.

Við stöndum því frammi fyrir lykilspurningu:

Eigum við að taka þátt í þeirri breytingu sem á sér stað um allan heim – frá veiddum til ræktaðra fiska?

Í dag eru framleidd 3 milljón tonn af eldislaxi í opnum sjókvíum á heimsvísu. Norðmenn framleiða helminginn – og stefna á 5 milljón tonn. Hvað ætlum við Íslendingar að gera?

Umræðan hér á landi hefur verið stýrt af einhliða málflutningi hagsmunaaðila í laxveiðum, oft byggður á slagorðum og hræðsluáróðri. Tími er kominn til að fleiri sjónarmið fái vægi – því þetta snýst ekki bara um fisk. Þetta snýst um framtíðartekjur Íslands, atvinnu, byggðir – og já, náttúruna líka.

Ég verð að viðurkenna – sem maður sem kemur úr sjávarútvegi – að ég hef ekki hlustað nóg á vatnakenningar Jóns Kristjánssonar. En eftir þennan þátt… þá skammast ég mín hálfpartinn fyrir það.

Kannski er kominn tími til að við hlustum aðeins meira á olbogabörnin. Þau hafa stundum rétt fyrir sér.

Hlustið sjálf: