Iðnaðarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tók á móti fyrstu Köku ársins 2022 í gær.

Landssamband bakarameistara efndi venju samkvæmt til árlegrar keppni um Köku ársins. Sigurvegari keppninnar var Rúnar Felixson, bakarameistari hjá Mosfellsbakaríi. Kaka ársins er með pistasíu-mousse með Creme-Brulee-miðju, hindberjageli og stökkum pistasíubotni, hjúpuð súkkulaði og toppuð með pistasíu kremi.

Sala á kökunni hefst í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara um allt land í dag, fimmtudaginn 17. febrúar í tilefni konudagsins sem er næstkomandi sunnudag. Kaka ársins verður til sölu það sem eftir er ársins.

Mynd/Birgir Ísleifur
Á myndinni eru, talið frá vinstri, Hafliði Ragnarsson, formaður Landssambands bakarameistara, Rúnar Felixson, bakarameistari, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, iðnaðarráðherra, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.