Í gær, þriðjudaginn 16. febrúar komu ítalskir nemendur í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga. Ekki í eigin persónu reyndar heldur í gegn um Evu, sem er önnur af tveimur nærverum skólans. Ítölsku nemendurnir stýrðu nærverunni um skólahúsið og okkar fólk sýndi þeim skólann og heilsuðu upp á nemendur og starfsfólk.

Þetta er liður í áfanganum Matur og menning eða Let´s eat culture sem er samstarfsverkefni með tveimur evrópskum skólum; IES Tías á Lanzarote á Kanaríeyjum og IISS Patini Liberatore í Castel di Sangro á Ítalíu. Þetta er í annað sinn sem skólarnir þrír vinna saman á þennan hátt. Verkefnið snýst um matarhefðir á mismunandi svæðum en einnig um sjálfbærni og umhverfisvitund. Þannig er verið að skoða innpökkun og geymslu á matvælum en einnig er matarsóun sett á dagskrá.

Í verkefninu læra nemendurnir að elda mat og um leið að taka ljósmyndir, myndskeið og skrifa uppskriftir á ensku. Markmiðið er að búa til rafræna matreiðslubók. Í henni verða þó ekki einungis uppskriftir heldur ýmsir skemmtilegir fróðleiksmolar um mat og matarhefðir. Þá stendur til að hanna vistvænar umbúðir og lógó fyrir verkefnið. Öllu verður svo safnað saman á vefsíðu og einnig er komin Instagram síða fyrir verkefnið.

Einnig stendur til að fara í tvær námsferðir og heimsækja samstarfsskólana. Í lok apríl verður farið til Ítalíu og næsta haust til Lanzarote. Í þessum ferðum gista nemendurnir í heimahúsum og fá þannig matarmenninguna beint í æð. Erlendu nemendurnir koma svo í heimsókn til okkar næsta haust.

Borða menninguna

Fleiri myndir hér

Instagram

Mynd/Ida Semey