Umsóknum um kennaranám hefur fjölgað verulega á milli ára í háskólunum fjórum; Háskólanum á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands fjölgar umsóknum um framhaldsnám leikskólakennara um 118% í ár, grunnskólakennaranám um 85%, framhaldsskólakennaranám um 47% og 67% í íþróttakennaranámið.

Umsóknum um nám við listkennsludeild Listaháskóla Íslands fjölgar um 12% milli ára en þar varð algjör sprenging í umsóknum í fyrra, alls 122%, með tilkomu nýrrar deildar við skólann. Athygli vekur hversu margir karlar sækja um kennaranám listaháskólans í ár en fjöldi þeirra nífaldast frá því í fyrra.

„Þetta eru virkilega gleðileg tíðindi – það að fjölga starfandi kennurum og stuðla að nýliðun í kennarastétt er langhlaup en fjölgun umsókna er frábært fyrsta skref. Það er spennandi nám og starfsvettvangur í boði, sem býður upp á bæði sveigjanleika og starfsöryggi. Samfélagið hefur áttað sig á mikilvægi kennarastarfsins, ekki síst í ljósi atburða síðustu mánaða,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að efla menntun í landinu er að stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og því bjóðast kennaranemum nú launað starfsnám og hvatningarstyrkir að upphæð 800.000 kr. Þá geta starfandi kennarar einnig fengið styrk til þess að efla sig í starfi og bæta við sig námi í starfstengdri leiðsögn. Vísbendingar komu strax fram um jákvæð áhrif þessara aðgerða sl. vor þegar umsóknum um kennaranám fjölgaði og heldur sú þróun áfram nú. Í haust verður í fyrsta sinn boðið upp á nýja gráðu til kennsluréttinda hér á landi, MT-gráðu (e. Master of Teaching) en það er 120 eininga nám á meistarastigi sem lýkur með námskeiðum í stað lokaverkefnis.

Umsóknum fjölgaði einnig um meistaranám Háskólans í Reykjavík sem menntar íþróttakennara. Umsóknafrestur kennaradeildar Háskólans á Akureyri er til 15. júní en þegar hafa borist óvenjumargar umsóknir þangað í bæði grunn- og framhaldsnám miðað við sama tíma í fyrra, ekki síst í leikskólakennarafræði. Umsóknafrestur vegna grunnnáms á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er til 15. júní nk.

Heimild og mynd: stjornarradid.is