Botninn:

  • 3 dl hveiti (eða hveiti og heilhveiti til helminga)
  • 125 g smjör
  • 2 ½ msk kalt vatn

Skerið smjörið niður og setjið í skál ásamt hveitinu. Látið skálina standa í smá stund svo smjörið mýkist aðeins. Blandið saman með höndunum eða handþeytara. Bætið köldu vatni saman við og vinnið saman í slétt deig. Þrýstið deiginu i botn á bökuformi (eða lausbotna kökuformi) og stingið með gaffli yfir botninn. Látið standa í ísskáp í 20 mínútur, eða á meðan fyllingin er útbúin.

.

 

Fylling:

  • 1 rauðlaukur (eða 1 lítill púrrulaukur)
  • 1 hvítlauksrif
  • um 120 g salami
  • 150 g fetaostur
  • 250 g kirsuberjatómatar
  • ½ dl fersk hökkuð basilíka eða 1 msk þurrkuð
  • 2 dl rifinn ostur
  • 3 egg
  • 2 ½ dl rjómi
  • ¾ tsk salt
  • smá af svörtum pipar

Fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið lauk og hvítlauk í smjöri þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Skerið salami í strimla, fetaostinn í teninga (ef notaður er fetakubbur) og tómatana í tvennt. Ef notuð er fersk basilíka þá er hún hökkuð.

Takið bökubotninn úr ísskápnum og setjið lauk og hvítlauk yfir hann. Setjið þar á eftir salami, fetaost, tómata og basilíku yfir. Stráið rifnum osti yfir.

Hrærið saman eggjum, rjóma, salti og pipar. Hrærið saman þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir bökuna. Bakið í neðri hluta ofnsins við 200° í um 40 mínútur eða þar til bakan hefur fengið fínan lit. Berið fram með salati.

.

 

.

 

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit