Markmið nýs samnings mennta- og barnamálaráðuneytisins við Samfés, Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, er að tryggja framgang stefnu ráðuneytisins um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna til 2030, auka lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna í ákvarðanatöku og styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skrifaði undir samninginn í síðustu viku ásamt Guðrúnu Svövu Baldursdóttur formanni Samfés.
Samfés, Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, hafa verið starfrækt frá árinu 1985. Auk fjölbreyttra verkefna og viðburða fyrir börn, ungmenni og starfsfólk á vettvangi frístundastarfs allra 125 aðildarfélaga á landvísu er áhersla starfseminnar á að auka samstarf og samtal þeirra á milli, veita aðstoð, þjónustu og standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum, forvarnar- og fræðsluverknum og styðja við aukna félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks á Íslandi.
Samfés styður við öflugt ungmennaráð sem samanstendur af 27 lýðræðislega kjörnum fulltrúum á aldrinum 13-16 ára frá öllum kjördæmum landsins og starfar á landsvísu. Ungmennaráð Samfés byggir m.a. á æskulýðslögum þar sem hlutverk ungmennaráða er að vera til ráðgjafar um málefni ungs fólks. Þá heldur Samfés úti Fulltrúaráði Samfés sem skipað er fulltrúum ungmennahúsa á aldrinum 16–25 ára.
Samfés vinnur nú þegar með mennta- og barnamálaráðuneytinu að margvíslegum verkefnum sem hefur fjölgað með samþykkt laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna og stefnu um Barnvænt Ísland (framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna).
Mynd/Guðrún Svava Baldursdóttir formaður Samfés og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirrita samning í húsakynnum Samfés