Um síðustu helgi héldu vaskir bændur á Siglunes til að sækja sauðfé. Ferðin reyndist fjölbreytt og viðburðarík þar sem ýmis óvænt viðfangsefni komu upp.
Dróni var notaður til aðstoðar við leitina og rakst hópurinn á hvalreka.
Þegar komið var að Reyðará bilaði vélfákurinn sem dró kerru með lambhrút, og þurfti hópurinn því að bregðast við því. Bændur útbjuggu aktygi á staðnum og tóku að sér að draga kerruna sjálfir rúma 2,5 kílómetra. Þrátt fyrir óhefðbundnar aðstæður gekk sú ferð vel.
Lambhrúturinn var fluttur í kerrunni eftir að hafa verið sóttur gegn vilja sínum í grasi gróna brekku og var rólegur meðan á ferðinni stóð.
Veðrið lék við menn, kalt en bjart, og skapaði góðar aðstæður fyrir þetta eftirminnilega ferðalag út á Siglunes.
Þessar fallegu myndir tók Ingvar Erlingsson í ferðinni.






















