Fyrir stuttu gaf listamaðurinn Selma Hrönn Maríudóttir út lagið Edge of the Flame. Trölli.is hafði í kjölfarið samband við Selmu Hrönn og spurðist fyrir um hana og tilurð lagsins. Lagið Edge of the Flame er komið í spilun á FM Trölla.

Hver er Selma Hrönn Maríudóttir?

Ég bý á Siglufirði og hef gert síðustu átta ár. Ég ólst upp víða, meðal annars á Siglufirði og í Vestmannaeyjum og á sterkar rætur á Norðurlandi. Ég er fædd á Akureyri og er dóttir Gylfa Ægissonar frá Siglufirði og Kristínar Maríu Jónsdóttur frá Akureyri, sem bæði eru látin.
Sköpunarþörf hefur fylgt mér alla tíð, þó í ólíkum myndum og á mismunandi tímum lífsins.

Ég er lögfræðingur og rafeindavirki að mennt og hef einnig stundað nám í kerfisfræði og forritun. Í dag starfa ég sjálfstætt, aðallega við vefsíðugerð fyrir félög og fyrirtæki undir nafninu wplausnir.is. Samhliða vinnu hef ég alltaf sinnt skapandi verkefnum, einkum við tónlist og gerð barnaefnisins um Grallarana á grallarar.is.

Hvenær byrjaðir þú að semja tónlist og hvað varð til þess að þú fórst að gefa út?

Ég samdi mín fyrstu lög og texta þegar ég var sautján ára. Það var alltaf mikið af tónlist í kringum mig og ég er sennilega með þetta í genunum. Þegar ég ákvað svo að gefa út var það fyrst og fremst til að klára ferlið. Skapandi hugmyndir sækja á hugann þar til þeim hefur verið gefið form og þeim lokið.

Ég tók mér frí frá námi og vann í saltfiski í eitt ár til að fjármagna útgáfuna, sem var ákveðin áskorun í sjálfu sér. Fyrir mig snerist útgáfan líka um að skora sjálfa mig á hólm í þroskaferlinu. Það er mjög þroskandi að setja verkið sitt út í kosmóið og takast á við viðbrögð og gagnrýni annarra.

Þegar farið er inn á listamanninn Selmu Hrönn á Spotify er mjög ólík tónlist þar eftir þig, allt frá ljúfum jólalögum upp í þungarokk, hvar staðsetur þú þig í dag sem listamann?

Fyrir mig hefur tónlistarsköpunin alltaf verið leið til heilunar og tilfinningalegrar útrásar. Ég hef aldrei samið eftir ákveðinni formúlu eða innan ákveðins stíls, heldur verða lögin til þegar ég sest niður við hljóðfæri í ákveðnu hugarástandi. Tónlistin endurspeglar oft það ástand sem ég er í hverju sinni.

Textarnir koma yfirleitt seinna og geta verið af ýmsum toga, allt frá hreinum skáldskap yfir í frásagnir sem tengjast mínu eigin lífi með einhverjum hætti eða einhverju sem snertir mig. Ég er enn á sama stað hvað þetta varðar, tónlistin mín tilheyrir ekki einni ákveðinni stefnu, heldur fylgir hún einfaldlega tilfinningunni hverju sinni. Ég staðset mig því í frelsinu til að skapa, óháð straumum og stefnum.

Viltu segja frá tilurð nýja lagsins Edge of the Flame og söngvaranum?

Eric Castiglia
Eric Castiglia flytur lag eftir Selmu


Edge of the Flame fjallar um baráttu og eldmóð fyrir lífinu og listinni, þar sem sársauki verður að eldsneyti, sjálfsuppgötvun kveikir innri eld og seiglan heldur honum lifandi þrátt fyrir mótlæti. Lagið snýst í raun um það augnablik þegar maður stendur á mörkunum og áttar sig á því hvað það er sem heldur manni gangandi.

Ég myndi lýsa laginu sem kraftmiklu rokklagi með sterku eighties hármetalívafi, þar sem grípandi gítarar, melódískur söngur og orkumikil útsetning fara saman.

Söngvarinn heitir Eric Castiglia og er ítalskur session-tónlistarmaður og þungarokkssöngvari. Ég vann fyrst með honum árið 2014 þegar ég fór að gera enskar útgáfur af lögunum mínum.

Yfirleitt vinn ég lögin þannig að ég geri demo hér heima og hef svo samband við einn tónlistarmann í einu og skipti hljóðfærunum út koll af kolli. Ég byrja ýmist á trommum eða bassa og byggi lagið svo áfram. Í þessu tilfelli fékk ég Eric hins vegar til að sjá bæði um söng og hljóðfæraleik, þar sem hann er einstaklega fær á þessu sviði og í þessum tónlistarstíl.

Mér fannst líka mikilvægt að fá inn smá metal-öskur til að tengja saman lokin á rólega kaflanum yfir í gargandi gítarsólóið, svona eins og glóð sem verður að báli.

Hvað er framundan hjá þér á nýju ári?

Ég er með mörg járn í eldinum samhliða vinnu á nýju ári. Ég er meðal annars að undirbúa minningartónleika um pabba í samvinnu við marga góða aðila, sem fram munu fara á Siglufirði í haust, en hann hefði orðið áttræður í nóvember. Samhliða því mun ég vinna að vef sem verður tileinkaður lífi hans og list. Ég held einnig áfram þeirri vinnu að koma tónlistinni hans inn á Spotify og aðrar streymisveitur.

Barnamenningarverkefnið mitt um Grallarana verður 20 ára í sumar og af því tilefni verður opnaður nýr vefur og nýjar bækur gefnar út, ásamt fleiru, með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra.

Ég stunda meistaranám í rafeindavirkjun samhliða vinnu og mun halda því áfram í vetur. Og að lokum stefni ég á að gefa út meira af minni eigin tónlist á árinu, enda bíða mörg lög eftir að verða kláruð.

Selma og faðir hennar Gylfi Ægisson
Selma og Gylfi í gegnum árin.

Selma á Spotify: https://bit.ly/SelmaSpotify
Selma á YouTube: https://bit.ly/SelmaYouTube
Selma á Instagram: https://bit.ly/SelmaInstragram