Forsetahjónin hófu þann 8. apríl þriggja daga ríkisheimsókn til Noregs, þar sem þau dvöldu bæði í Ósló og Þrándheimi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra tóku einnig þátt í dagskrá heimsóknarinnar ásamt opinberri sendinefnd og viðskiptasendinefnd.

Gestgjafar forsetahjónanna eru Haraldur V. konungur og Sonja drottning, ásamt Hákoni krónprinsi og Mette-Marit krónprinsessu. Elsta dóttir þeirra, Ingrid Alexandra prinsessa, tekur auk þess þátt í sinni fyrstu ríkisheimsókn. Þrjár kynslóðir norsku konungsfjölskyldunnar voru því viðstaddar móttökuathöfn forsetahjónanna við Óslóarhöll.
Á vef Forseta Íslands kom fram í tilkynningu að samhliða heimsókninni ferðaðist viðskiptasendinefnd til Noregs með fulltrúum um 40 íslenskra fyrirtækja. Þau tóku þátt í hluta dagskrár með forseta og konungi, ásamt fulltrúum úr norsku viðskiptalífi. Sendinefndin var skipulögð af Íslandsstofu í samvinnu við Innovation Norway, Norsk-íslenska viðskiptaráðið, Grænvang, Íslenska sjávarklasann og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
Megináhersla viðskiptahluta heimsóknarinnar er að styrkja tvíhliða samstarf þjóðanna með því að styðja við sjálfbæra nýsköpun í bláa og græna hagkerfinu – þ.e. í sjávarútvegi og grænum orkuskiptum.
Með í för eru Snædís Xyza Mae Ocampo, landsliðsþjálfari Kokkalandsliðsins, Marlís Jóna Þórunn Karlsdóttir frá Siglufirði, matreiðslunemi ársins 2025, og Hafliði Halldórsson, matreiðslumeistari. Þau sáu um matseldina við hátíðarkvöldverð í íslenska sendiráðinu sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hélt.
Matseðill kvöldsins var glæsilegur og undirstrikaði gæði íslenskrar matargerðar:
Forréttur:
Steiktur íslenskur þorskur með gúrku- og eplasalati, Hollandaise-sósu og ferskum jurtum.
Aðalréttur:
Grillaður íslenskur lambahryggvöðvi með kartöflumauki, steiktum Shiitake-sveppum, Bok Choy, Feyki og lamba soðsósu.
Eftirréttur:
Skyrganache með aðalbláberja compote og bökuðu hvítu súkkulaði.
Ríkisheimsókninni lauk í Þrándheimi síðdegis 10. apríl.
Á forsíðumynd eru þau Snædís Xyza Mae Ocampo, Hafliði Halldórsson, Marlís Jóna Þórunn Karlsdóttir og Halla Tómasdóttir
Mynd: aðsend / Hafliði Halldórsson
Heimild / Veitingageirinn.is