Leó Ólason

Aðfaranótt 23. janúar 1973 hafði ég sofnað út frá útvarpinu en glaðvaknaði þegar fréttir hófust um miðja nótt. Eldgos á Heimaey.

Var þetta eitthvert furðulegt grín eða blákaldur veruleikinn? Ég var nokkra stund að átta mig á því að þarna væri allt í alvörunni því á gömlu gufunni sem þá var eina útvarpsrásin var sjaldan mikið grín í gangi. Jörðin hafði rifnað í verstöðinni Vestmannaeyjum og logandi eldstólpar teygðu sig til himins. Hraun flæddi og síðar byrjuðu eitraðar gufur að leggjast yfir bæinn. Þriðjungur bæjarins grófst undir hraun og ösku og ljóst var að margir þurftu aðstoðar við.

Við fundum til samkenndar með löndum vorum hinum megin á Íslandskortinu og málið var rætt á næsta hljómsveitarfundi. Jú, við skyldum ganga á undan með góðu fordæmi og safna saman liði sem væri sammála okkur að því leiti að eitthvað þyrfti að gera og það strax.

Ég talaði við Odd Thorarensen þann ágæta mann og bað hann um að fá leigðan bíósalinn. Hann spurði að sjálfsögðu hvað stæði til og ég sagði honum að við í hljómsveitinni Frum vildum halda einhvers konar hljómleika eða tónleika eða hvað þetta nú héti en markmiðið væri að safna fyrir Vestmannaeyinga. Þá kostar salurinn ekki neitt svaraði Oddur af bragði og andlitið á honum varð allt í einu alveg rosalega alvarlegt.

Oddur Thorarensen. Mynd/Ljósmyndasafn Siglufjarðar

Ég talaði við fleiri og ennþá fleiri. Allir voru að sjálfsögðu til í að gera allt sem í þeirra  valdi stóð því málstaðurinn var óumdeilanlega góður. Eftir nauðsynlegan undirbúning var skemmtunin síðan auglýst og haldin í bíóinu fyrir næstum því fullu húsi.

Við hófum dagskrána sennilega vegna þess að við skipulögðum hana. Gummi Ingólfs stofnaði aðra hljómsveit sérstaklega til að flytja frumsamið efni eftir sig. Þar spilaði hann á orgel og söng: Hver ert þú og hver er ég? / Um það enginn veit, / við höfum margs að spyrja. Stúlli spilaði á flöskur og Maggi Guðbrands spilaði undir á íslenska gítarinn sinn af gerðinni “Strengur.”

Þá settu þeir Óskar Elefsen og Maggi Guðbrands upp leikþátt sem var reyndar búinn til á staðnum en virkaði ágætlega. Óskar kom inn þar sem ekkert var nema tómt borð og stóll alveg á miðju sviðinu. Hann var í ógnarstórum frakka og tíndi upp úr honum hnífapör, disk, glas, kertastjaka og reyndar matinn líka og settist síðan að snæðingi. Svo öskraði hann á þjóninn (Magga) sem kom og kveikti á kertunum og tók sér síðan stöðu fyrir aftan stólinn en þá var dregið fyrir. Þegar tjaldið var dregið frá aftur var Óskar enn að borða en eftir matinn pakkaði hann öllu aftur saman ofan í frakkavasana og fór en þjónninn stóð ráðvilltur eftir á sviðinu. Gamall frasi hljómar svo einhvern veginn þannig að þetta var bara fyndið eins og þeir gerðu það.

Þegar ég kom til að gera upp söluskattinn vegna skemmtunarinnar var Óli Birgis núverandi bæjarstjóri ekki alveg sáttur við að ríkið væri í þessu tilfelli eini aðilinn sem hagnaðist á framtakinu.

Nýja Bíó. Mynd/Steingrímur Kristinsson

25% söluskattur af þetta mörgum miðum gera…

Jæja voru ekki fleiri?

Hann glotti og ég velti því fyrir mér eitt augnablik hvort ég ætti að hafa góða samvisku eða slæma vegna skilanna á söluskattinum.

“Þetta er bara gott framtak hjá ykkur.”

Óli Birgis handskrifaði kvittunina eins og alltaf var gert í þá daga og rak síðan stimpilinn af afli ofan á blaðið.

Svo fór ég með rúm sjötíu og þrjú þúsund út á prestssetur því presturinn okkar var náttúrulega í forsvari fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar á Siglufirði.

En gaman væri svo sem að vita hversu mikil upphæð þetta væri að núvirði.

Nú er svo komið að minnið er ekki alveg óbrigðult enda nokkuð um liðið síðan þetta gerðist og ég get ekki með nægilega góðri vissu munað hverjir fleiri komu þarna við sögu.

 

Grein: Leó Ólason
Myndir: úr einkasafni/Ljósmyndasafn Siglufjarðar/Steingrímur Kristinsson