Halldór Logi Hilmarsson

Gulleggið er frumkvöðlakeppni Icelandic Startups og er tilvalinn vettvangur fyrir frumkvöðla og aðra hugmyndasmiði sem eru að stíga sín fyrstu skref og vilja fá aðstoð við að móta hugmyndir sínar og koma þeim í framkvæmd.

Þátttaka í Gullegginu veitir frumkvöðlum einnig fjölmörg tækifæri til að efla tengslanetið og koma hugmyndum sínum á framfæri.

Sigurvegari keppninnar hlýtur að launum 1.000.000 kr. í peningaverðlaun auk þess sem hægt er að vinna til fjölda aukaverðlauna.

Þátttaka í Gullegginu er skemmtileg og krefjandi áskorun fyrir unga frumkvöðla. Sú reynsla og þekking sem skapast hefur nýst vel þegar út í atvinnulífið er komið.

Einn af þeim sem taka þátt í Gullegginu í ár er Siglfirðingurinn, Halldór Logi Hilmarsson. Halldór er sonur Svanfríðar Pétursdóttur og Hilmars Þórs Zophoníassonar, sem lést fyrir skömmu langt fyrir aldur fram.

Halldór Logi ólst upp á Siglufirði en býr um þessar mundir í Garðabæ ásamt unnustu og stjúpsyni.

Hann útskrifaðist með Bsc. í Ferðamálafræði með markaðsfræði- og alþjóðaviðskipti sem aukagrein frá Háskóla Íslands í febrúar 2017. Byrjaði síðan nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík í september 2017 og útskrifaðist með Bsc. gráðu í júní 2019.

Halldór Þór spilaði fótbolta með KS/Leiftri og KF frá 2006-2019

Var hann kominn með atvinnutilboð fyrir útskrift “en vegna veikinda föður míns þurfti ég að afþakka það boð. Byrjaði að vinna í Uppscript í október 2019 á meðan ég leitaði að vinnu sem hentaði aðstæðum betur. Í mars síðastliðinn fékk ég svo vinnu hjá fyrirtæki sem heitir Nox Health, þar starfa ég í dag sem mobile forritari”.

Undanfarin 6 sumur hefur Halldór Logi verið á strandveiðum frá Siglufirði á bátnum Otur SI-3. Það hefur reynst honum vel að geta sparað yfir sumarið og nánast alveg sloppið við að að taka námslán. Spilaði hann einnig fótbolta með KS/Leiftri og KF frá 2006-2019.

Í sumar var Halldór Logi bæði á strandveiðum og í 100% vinnu sem forritari og hafði því ekki tíma til að vinna í appinu. “Eftir að ég flutti aftur suður núna í haust hafði ég aðeins meiri tíma á milli handanna og þegar ég sá að það var í boði að taka þátt í Gullegginu í gegnum netið þá skráði ég mig um leið. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti, smá spark í rassinn” Sagði Halldór.

Hér má sjá myndband með kynningu Halldórs Loga á frumkvöðlaverkefninu Uppscript.

Uppscript

  • Uppscript er app fyrir þá sem eru skipulagðir þegar kemur að mat og matarinnkaupum, en hafa einnig gaman af smá hvatvísi inni á milli.
  • Í appinu geta notendur skoðað uppskriftir eftir flokkum og undirflokkum og hverri uppskrift er hægt að bæta á matseðil. Hægt er að skipuleggja matseðil fram í tímann ásamt því að geta skoðað söguna.
  • Fyrir hverja uppskrift er að finna hráefnalista og ef notandann vantar hráefni af listanum er hægt að bæta því á innkaupalista með einum smelli. Þá hafa notendur einnig möguleika á að bæta uppáhalds uppskriftunum sínum á sér lista sem er flokkaskiptur.
  • Í appinu er hægt að leita að uppskriftum eftir hráefnum. Notendur geta þá slegið inn það sem þeir eiga til í ísskápnum og birtast þá uppskriftir sem passa við leitarskilyrðin.
  • Síðast en ekki síst geta hvatvísir notendur eða þeir sem geta ómögulega ákveðið hvað á að vera í matinn nýtt sér valmöguleika í appinu sem býður upp á ýmist matarflokka eða einstakar uppskriftir af handahófi.

Myndir: úr einkasafni/ Gulleggið.is