Einherji 8. september 1932

Siglufjörður! Eftir Nils Bohlin. 

.”..Grein þessi er eftir sænska blaðamanninn Nils Bohlin, sem er einn af starfsmönnum Göteborgs-Tidningen. Hann kom hingað að gamni sínu til að kynnast Siglufirði og sjá með eigin augum þennan höfuðstað síldarinnar, sem hann hafði svo oft heyrt frá sagt og margt misjafnt… ”

Þetta eru inngangsorð ritstjóra Siglfirska bæjarfréttablaðsins Einherja varðandi óvænta síðsumars heimsókn 1932 frá Svíþjóð.

ATH: Undirritaður fann þessa makalaust skemmtilegu Siglufjarðar lýsingu, í einum af mörgum gullmola bæjarblaða glefsum, sem sögumaðurinn Steingrímur Kristinsson, hefur safnað saman á heimildasíðunni sinni. Þessi texti kemur úr safn greininni: Blaðið Einherji.

Frásögn Nils Bohlin, gæti allt eins heitið:

Glöggt er sænska, gesta teiknara augað!

… og ritstjórinn heldur áfram:

“… Bohlin er afbragðs teiknari og teiknaði hann margt af því, er hér bar fyrir augu.
Ætlar hann að skrifa í blað sitt, er heim kemur, greinar um Siglufjörð og birta þá líka teikningar sínar.
Hefir hann lofað Einherja að senda honum þessi blöð og má vera, að Einherji birti eitthvað meira eftir hann. Þessa grein ritaði hann fyrir Einherja áður en hann fór…

“… Kveður hér við dálítið annan tón en þegar íslenzku blaðamennirnir sumir, og ferðamenn, hafa verið að ausa Siglufjörð og íbúa hans svívirðingum. Virðist það og enn vera ýmsra manna áhugamál að hafa Siglufjörð að fótaskinni — ausa þar upp fé. og hrækja svo á staðinn á eftir…”

“… Bohlin kom hingað með Iitlu, sænsku flutningaskipi, „Ilse,” og fór með því aftur heimleiðis.”

ATH. (Smelltu á hvaða mynd sem er og þá birtist hún þér stærri.)

Áður en við skellum okkur í lestur á Sigló frásögn og upplifun Nils, er vert að kynna manninn aðeins betur og taka samtímis, smá söguleg og áhugaverð hliðarspor :

Bohlin, Nils, (1891-1962)

Var þekktur blaðamaður/listamaður og teiknari ( Illustratör ), á árunum 1920 – 1950 skrifaði hann greinar og birti teikningar sínar í meðan annars, Göteborgs Tidning, Göteborgs Posten, Göteborgs Handels och Sjöfartstidning o.fl.
Í þessari Bohlin ætt eru margir þekktir listamenn, frægust er líklega dóttir Nils, glerlistakonan, Lisa Bauer.

ATH. Vert er að benda á að í lok 19 og byrjun 20 aldarinnar var mjög algengt að dagblöð birtu teiknaðar myndir, en Það var lengi vel mun auðveldara, en að birta ljósmyndir.

Nils og fjölskylda, bjuggu lengst av í “Gamla Arkaden” sem er horfið sögufrægt Gautaborgar hús og hafði hann listamanna aðstöðu í einum af turnum hússins.

Vegna höfundaréttar, er ekki hægt, hér og nú að sýnda ykkur lesendum dæmi um teikningar Nils, en þær eru mjög svo í stíl við dásamlegar teikningar eftir t.d. Siglfirsku listamennina, Ragnar Páll, Braga Magg og Örlyg Kristfinns.

Á heimasíðu Göteborg Stadsmuseum er hægt að skoða nokkuð margar ljósmyndir af listsköpun Nils Bohlins og einnig hér: NILS BOHLIN. 9 Grafiska blad.

Eins og flest allir lesendur Trölla vita, hefur pistlahöfundur verið búsettur í Gautaborg í 35 ár eða svo… og ég verð að segja að ég hef gert margar og ítarlegar tilraunir í að reyna að finna þessar Siglufjarðar teikningar Nils Bohlins, en því miður hefur mér, hingað til ekki tekist að finna eina einustu mynd.

Það virðist vera svo að hann Nils, sveik þetta ofannefnda loforð sitt við Einherja, því við leit á t.d. tímarit.is fann ég ekkert annað en greinar um annan frægan Volvo Gautaborgara, með saman nafn, nefnilega: “Nils Bohlin, 1959 Inventor of the 3-point safety belt.

Þessa heimsfrægu þriggja punkta öryggisbelta uppfinningu, gaf Volvo heiminum að kostnaðarlausu og hefur það bjargað óteljandi mannslífum. Hvort þessir tveir Gautaborgar Nilsarar, séu skyldir, veit ég ekkert um.

ATH. Þessi samantekt byrjar með fallega teiknaðri forsíðumynd, en hún er sköpuð út frá mínum eigin orðum, með gervigreindar myndsköpunar forriti frá Bing Microsoft. Sjá meira hér: Create art from words with AI.

Þegar við lesum greinina sem Nils skrifaði á sænsku og hún er meistaralega vel þýdd hjá okkar Siglfirsku Einherjamönnum, þá fáum við teiknaðar Sigló myndir í okkar eigin leshaus, þar af er óþarfi að myndskreyta þennan texta.

Höfundurinn er listamaður og þessar myndrænu lýsingar Nils Bohlins minna mig á annan Svía (frægur blaðamaður, ljósmyndari og áhuga flugmaður) sem kom einnig í heimsókn til Siglufjarðar og setti þá dásamlega ljóðræn og eftirminnileg orð á upplifun sína, í bæði ferðasögubók og kvikmynd.
Sjá meira hér:

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi. 1 hluti

Hér kemur loksins restin, af þessi frábæru Einherja grein Nils Bohlins:

“Það var nótt þegar ég sá Siglufjörð í fyrsta sinn…

Ég stóð á stjórnpalli „Ilse”. Ljósin í bænum tindruðu í kolsvörtu myrkrinu og spegluðust í lognsléttum firðinum. Þessi sjón var hvort tveggja í senn fögur og óvænt. Ég hafði fyrr þennan dag séð dálítið sýnishorn af landinu, er við komum úr hafi undir Langanes og vestur með ströndinni, og það sem ég sá þá, gaf fyrirheit um margt fagurt og stórhrikalegt.

En það datt mér aldrei í hug, að sjá langar rafljósaniðir tindra í faðmi þessara bröttu, hrikalegu fjalla, þar eð svo má segja, að sjálft íshafið freyði við rætur þeirra. Það var sannarlega óvænt. Er„Ilse” var lögst við akkeri út á höfninni heyrðust glöggt stunur og skrölt í vélum frá landi, og háir verksmiðjureykháfarnir þyrluðu kafþykkum reykjarmekki og eldglæringum út í nóttina. 

Við þetta blandaðist baulið í flutningabílunum, og köll og hróp í fólki, sem var önnum kafið þótt nótt væri.
Mér lá við að spyrja skipstjórann, hvort áttavitaskekkja eða prentvillur í logaritmatöflunum hans hefðu eigi orðið þess valdandi, að „Ilse” litla væri komin í allt aðra höfn en ákveðið var…

Hvernig gat þetta verið Siglufjörður?

— svolítil síldarsöltunarstöð norður undir heimskautsbaug?
Hérna uppi á ströndinni framundan okkur var allt á þá lund, að það minnti á stórborg.

En það þýðir ekki fyrir landkrabbann að spyrja sjómanninn. Ég beið aftureldingar með mikilli eftirvæntingu. Og eigi varð ég síður undrandi, en um nóttina, á því er fyrir augun bar, er sólin var að koma upp út við Siglunesið.

Hvað var þetta?

Húsaþyrpingin uppi á ströndinni, skipin á höfninni — þar á meðal hún „Ilse” okkar — allt var svo aumkunarlega lítið og smátt.

 Tunnuháfermið á „Ilse,” sem virtist vera svo mikilfenglegt í Haugasundi varð nú hér að óverulegri smákútahrúgu. Og svo var mér sjálfum gengið, að mér fannst ég vera eins og Tumi þumall á meðal jötna. Hvað var þetta, sem svo skyndilega umhverfir öllum stærðarhlutföllum í augum mínum?

Ég gat ekki almennilega áttað mig á þessu fyrst í stað. En þegar ég hafði náð í teiknibókina mína og fór að teikna sýnina á blaðið, þá skildist mér fljótt, að það var hinn Voldugi, stórkostlegi fjallahringur, er lukti um okkur, er þrýsti öllu saman og minnkaði allt.

Ég hafði enga hugmynd haft um það, hve stór bær Siglufjörður var!

Og í hreinskilni sagt, þá veit ég það ekki enn, enda þótt ég hafi dögum saman reikað um bryggjurnar, verksmiðjuportin og göturnar. En grunur er mér á, að Siglufjörður verði eigi metinn og mældur á sama mælikvarða og aðrir vanalegir bæir. Íbúatalan, húsafjöldinn, lengd gatnanna o. s. frv. gefa enga hugmynd um bæjarins raunverulega mikilleika. Það liggur einhvern veginn í loftinu, að þessi staður er afar þýðingarmikill.

Hvíldarlaus, eirðarlaus er starfsemin!

Hér er miðstöð starfseminnar yfir síldveiðitímann. Og sú miðstöð lætur finna til áhrifa sinna um land allt og víða um heim, og eigi sízt í mínu eigin föðurlandi, Svíþjóð. Og þegar maður hefir nú átt þess kost, að sjá hina stórkostlegu starfsemi með eigin augum og finna hana brima og svella kringum sig, skilzt manni, að Siglufjörður hafi ekki enn þá haft tíma til þess að þvo sér og hafa fataskipti. 

En vinnuföt, er sá eini klæðnaður, er engum fer illa!

Og nógur verður sjálfsagt tíminn til þess í framtíðinni að hugsa fyrir „fínum” götum og „flottari” húsum. Vinnugleðin, sem alls staðar mætir manni, gefur um það fögur fyrirheit. En það liggur ekkert á þessu.

Eins og Siglufjörður er nú, þá hefir hann óendanlega margt og mikið fagurt og fróðlegt að sýna ókunnum ferðamanni. Ég hefi því miður ekki haft tíma til að dvelja hér nógu lengi, og fjöldi nýrra áhrifa eiga eftir að setjast að í hugskoti mínu.

En um alla hluti fram lýsir í minningunni af gestrisni og vingjarnlegu viðmóti Íslendingsins. Það er löng ferð frá Svíþjóð til Íslands, en er þangað kom, fann ég greinilega, að ég var kominn til kærra vina og ættingja, sem væri synd að heilsa ekki upp á oftar.

Og eigi Siglfirðingar eftir að koma til Gautaborgar…

…sem líka er starfseminnar bær á ströndum hafsins, vona ég, að þeir mæti samskonar viðmóti og gestrisni og ég hjá þeim.

Verið velkomnir þangað, Siglfirðingar!
Og kæra þökk fyrir kynninguna!”

Nils Bohlin

Að lokum:
Gervigreindar teikningar og ljósmyndir!

Svona til gamans má geta að þegar maður biður gervigreind að skapa teiknuð listaverk upp úr skrifuðum orðum, eins og t.d. Norður Ísland, fjöll, Siglufjörður, kirkja, séð frá Aðalgötunni… þá gerist ýmislegt merkilegt, eins og t.d að það er greinilegt að gervigreindin sækir/stelur sér fyrirmyndum og innblástur úr ljósmyndum á netinu. Þetta sést vel á myndum þar sem kirkjurnar líkjast Hallgrímskirkju, mest mynduðu kirkju Íslands.

ATH. Í þeim gervigreindar heimi sem við lifum í, er óvitlaust að hreinlega taka til umræðu:

Hvað er ljósmynd og hvað ekki?

Ég hef frá barnæsku heima á Sigló, haft mikla ljósmyndadellu og ég hef mjög svo gaman af tækniframförum og nota oft gervigreind, sem verkfæri við að laga gæði í gömlum svart hvítum myndum. Í slíku vinnsluferli, breytist ekki efnisinnihald myndarinnar eða þáttur ljósmyndarans, sem tók upprunalegu ljósmyndina.

Hins vegar finnst mér varasamt að kalla gervigreindar skapaða mynd fyrir ljósmynd, því hún er upp skálduð “sögufölsun,” sem sagt hún kemur ekki úr raunheimi manneskjunnar….

Hér birtast ykkur nokkur sýnishorn frá mínum tilraunum til að skapa góða forsíðu teiknimynd í fallegum stíl.
Þetta eru samt, margar hverjar, óneitanlega fallegar myndir…eða hvað?

ATH. (Smelltu á hvaða mynd sem er og þá birtist hún þér stærri.)

P.S. Annars var þetta einna helst í stuttum fréttum hjá Einherja 1932:

Einherji 11. febrúar 1932

„Frjálsar ástir” heitir bæklingur sem seldur hefir ‘verið á götum bæjarins undanfarna daga. Er það fyrirlestur, sem frk. Katrín Thoroddsen læknir í Reykjavík flutti í Útvarpið í fyrra, en A. S. V. gefur út. Ræðir þar um takmörkun barneigna og önnur feimnismál svokölluð, og er höf. hreinskilinn og bersögull. — Marga mun fýsa að lesa pésann.

Átta menn fóru upp á Strákhyrnuna í gær til að skyggnast um eftir hafís. Skyggni var allgott og varð hvergi eygður ís svo langt er sá.

Merktur fugl!
Jón Sigurðsson frá Eyri, skaut straumönd. (anas histrionica)  Var hún merkt P. Skovgaard Kristján A Jakobsson. V. 7349.

Einherji 10. ágúst 1932

Skemmtiferðaskip hafa komið óvanalega mörg til landsins í sumar. Ekkert þeirra hefir þó komið til Siglufjarðar, sem ekki er heldur að vænta, er hér líka lítið markvert að sjá en nóg af óþrifum, svo sem margra ára gamla síldarhauga við eina af aðalgötum bæjarins, uppfyllinguna dæmalausu við sömu götu, illa umgengna og óþrifalega síldarpalla, úldnar fýlutjarnir, mykjuhauga og margt af líku tæi. 

Einherji 17. ágúst 1932

Lík Guðm. sál. Skarphéðinssonar fannst hér í höfninni sunnudagsmorguninn síðasta. Líkið var allmjög skaddað, þar sem eigi hlífðu föt, en eigi var neinn í vafa um, sá er til þekkti, að þarna væri um jarðneskar leyfar Guðm. sál. að ræða, þekktust bæði föt hans og annað það er í vösum var, svo sem lyklar, er gengu að peningaskáp hans og öðrum hirzlum. úr, sjálfblekingar, peningabudda o. fl.

Einherji 24. ágúst 1932

Knattspyrnu þreytti Knattspyrnufélag Siglufjarðar við menn af norska eftirlitsskipinu Fridthjof Nansen síðast liðinn sunnudag. Fór sá leikur þannig, að Siglfirðingar unnu með með 11 á móti 2.

Einherji 14. september 1932

Tilkynning frá Siglufjarðar-Bíó!

Þar sem ómögulegt hefir reynst, þrátt fyrir marg ítrekaðar tilraunir, að fá börnin til að tala ekki saman og vera ekki með hávaða meðan á sýningu stendur, neyðumst vér til að hætta sölu barnaaðgöngumiða að öllum kvöldsýningum. Á sunnudögum og fimmtudögum kl. 6 verða sýningar fyrir börn, og verða aðgöngumiðar barna aðeins seldir að þeim sýningum.

Einherji 21. september 1932

Aðkomumenn, innlendir, Svíar, Danir, Norðmenn og Þjóðverjar, hafa, eins og farfuglarnir, flogið á brott nú undanfarið. Við brottför þessa fólks verður harmur sár og bitur í brjóstum þeirra er ástfóstri hafa tekið saman yfir sumarið, en verða nú að skilja. Minnir sá skilnaður á fjárréttir á haustin, að því undanskildu, að ekki ber eins mikið á jarminum. Við Íslendingar erum vanir að bera harm okkar í hljóði. Við höfum tvö orðtæki er sýna allvel skapferli okkar: „Grátum ekki, munum heldur”, og „Alltaf má fá annað skip og annað föruneyti”. 

Mögnuð taugaveiki, geisar nú í Ólafsfirði. Óskandi er að sá vágestur komi ekki hingað. Má vænta að til þess verði þær ráðstafanir gerðar er með þarf. 

Óþarfa leikur er það, sem börn og unglingar, hér hafa valið sér, nú undanfarið, að skjóta með teygjusnúrum hvert á annað. Er skammt á að minnast, að barn á Akureyri fékk eitt slíkt skot í augað og missti sjónina. 

Gæftir hafa verið hinar bestu, nú um skeið, og afli dágóður. 

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Teiknaðar ljósmyndir eru framleiddar með aðstoð frá Microsoft Bing AI gervigreind.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar, vísað er í aðrar heimildir gegnum vefslóðir í greinartexta.