Aðkomubátar umsvifamiklir
Siglufjarðarhöfn var stærsta löndunarhöfn landsins á þorski á fiskveiðiárinu 2016/2017. Fyrirtækið þjónar vertíðarbátum víða af landinu og er líka stærsta löndunarhöfn strandveiðiflotans á svæði B.
Þrátt fyrir mikil umsvif er fiskmarkaðurinn á Siglufirði þó ekki við eina fjölina felldur. Auk þess að selja fisk á uppboðsmarkaði annast fyrirtækið löndun fyrir alla sem þess óska, sér um afgreiðslu fyrir landflutninga Eimskips og er með umboð fyrir bílaleigu Höldurs. Auk þess sinnir það hvers kyns þjónustu fyrir útgerðir og áhafnir skipa. Þá rekur fiskmarkaðurinn starfsstöð á Hofsósi og fiskurinn þar er seldur í gegnum Fiskmarkað Siglufjarðar. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Steingrímur Óli Hákonarsson.
Mest um 8 þúsund tonn á ári
Fiskmarkaðurinn á Siglufirði tók til starfa árið 2004. Um þetta leyti voru fyrstu bátarnir frá Grindavík farnir að sækja miðin fyrir norðan og sömuleiðis höfðu Grímseyingar sýnt því áhuga að geta landað á Siglufirði. Engin þjónusta var á staðnum og þetta varð til þess að Steingrímur Óli fór af stað með fiskmarkað í samstarfi við heimamenn og fiskmarkað Suðurnesja, sem er annar stærsti hluthafinn í dag . Starfsemin byrjaði í gömlu Pólar rækjuverksmiðjunni. Það þurfti því að keyra með fiskinn frá höfninni og í gegnum allan bæinn. Því fylgdi talsverð vinna, kostnaður og óhagræði.
Núverandi húsnæði fiskmarkaðarins við höfnina var á sínum tíma byggt sem netaverkstæði. Þegar loðnuverksmiðjunni var lokað var ekki lengur grundvöllur fyrir netaverkstæðið sem sameinaðist Fjarðaneti á Neskaupstað. Húsið var sett á sölu. Þangað flutti svo Fiskmarkaður Siglufjarðar árið 2005 og hefur verið þar allar götur síðan.
Fyrstu árin voru umsvifin ekki mikil. Aðallega var fiskurinn af heimabátum en síðan hefur starfsemin heldur betur undið upp á sig. Þó hefur salan á markaðnum verið sveiflukennd en farið mest í um 8 þúsund tonn á einu ári en að jafnaði verið á milli 5-6 þúsund tonn. Á síðasta ári var salan tæp 5 þúsund tonn en sjómannaverkfallið dró að sjálfsögðu úr umsvifunum. 2016 nam salan um 6 þúsund tonnum og landaður afli var um 25.000 tonn. Þar af var landað um 22.110 tonnum af þorski og var Siglufjörður önnur hæsta löndunarhöfnin á þorski þrátt fyrir að lítið sé unnið af þorski á staðnum. Siglufjörður kom næst á eftir Reykjavík, þar sem 22.163 tonn af þorski komu á land árið 2016, og munaði ekki miklu á tveimur efstu höfnunum. Sé miðað við fiskveiðiárið 2016/2017 barst mesti þorskaflinn á land á Siglufirði, 20.553 tonn og næstu hafnir voru í Reykjavík, 20.511 tonn, Grindavík með 18.739 tonn og Vestmannaeyjar með 11.484 tonn.
Stystu leið til löndunar
Mörg aðkomuskip og bátar landa reglulega á Siglufirði hluta úr árinu og þar eru Grindavíkurbátarnir ekki síst atkvæðamiklir. Þetta hefur farið vaxandi undanfarin ár og síðustu þrjú árin hefur sérstaklega mikið af fiski komið þar á land. Megninu af þorski sem kemur ferskur á land er ekið til vinnslu fyrir sunnan og vestan en töluverður hluti fer á Fiskmarkað Siglufjarðar.
Húsið er 800 fermetrar að stærð en Steingrímur Óli segir að marga daga á ári sé alltof þröngt um starfsemina.
„Við erum með dálitla hliðarbúgrein sem felst í afgreiðslu fyrir Eimskipafélagið á landflutningum á pakkavöru og öðru. Oft á tíðum er því plássið alltof lítið,“ segir Steingrímur.
Tíu manns starfa hjá Fiskmarkaðnum. Fyrirtækið sér um alla löndun á Siglufirði. Bátar Stakkavíkur í Grindavík hafa í mörg ár landað á Siglufirði. Árið 2013 ákvað fiskmarkaður Siglufjarðar að færa út kvíarnar og markaðsetja sig fyrir stærri línuskip. Sú markaðsetning skilaði góðum árangri. Undanfarin 3 ár hafa stóru línuveiðiskipin landað á Siglufirði, t.d. Þorbjarnarskipin, Tjaldur, Rifsnes og Örvar frá Snæfellsbæ og Frosti frá Grenivík kemur reglulega . Á vorin hafa rækjutogarar Nesfisks í Garði, Sóley Sigurjóns og Berglín komið og verið langt fram á sumar. Rækjunni er landað og hún flutt til vinnslu á Hvammstanga.
„Menn vita orðið af þessari þjónustu og nýta sér hana þegar þeir eru við veiðar hérna úti fyrir Norðurlandi. Menn eiga að geta farið stystu leið sem er hagkvæmust fyrir skipin,“ segir Steingrímur Óli.
Sótt um leyfi fyrir stækkun
Fiskmarkaðurinn og sú þjónusta sem hann veitir aðkomubátum smitar út í umhverfið og umsvifin hjá óskyldum fyrirtækjum og einstaklingum eykst mikið þegar landanirnar eru sem flestar. Þannig hleypur á snærið hjá iðnaðarmönnum, köfurum, og talsverður kippur verður í verslun einnig. Starfsmenn fiskmarkaðarins gera sér gjarnan ferðir til Akureyrar til þess að ná í varahluti í skipin ef þess þarf. Þau panta tíma fyrir áhafnirnar hjá tannlækni og lækni. Allt er þetta innifalin þjónusta sem ekki er rukkað sérstaklega fyrir. Fiskmarkaðurinn er með útibú fyrir bílaleigu Höldurs og þegar mest er um landanir er mikið um útleigu á bílum.
Á mestu annatímum á haustin verður þess vart að húsið má ekki vera minna. Kælirinn er þá iðulega fullnýttur en hann tekur rúm 100 tonn.
Búið er að sækja um leyfi fyrir stækkun á húsinu til austurs. Þar vilja fiskmarkaðsmenn reisa 400 fermetra viðbyggingu.
„Ég hef miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi. Litlu karlarnir sem hafa eiginlega haldið okkur á floti allt árið eru að týna tölunni. Staðan er orðin mjög slæm hvað þetta varðar,“ segir Steingrímur Óli.
Strandveiðarnar hafa líka skipt miklu máli í rekstri Fiskmarkaðarins sem er sá stærsti í sölu á B-svæðinu.
Frétt og mynd birt með leyfi Fiskifrétta