Selasetur Íslands

Sigurður Líndal Þórisson hefur verið ráðinn verkefnastjóri Vestfjarðastofu á Hólmavík.

Sigurður hefur víðtæka reynslu og hefur síðustu rúmlega fjögur ár verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands og þar áður var hann í stjórnunarstöðu hjá risafyrirtækinu Expedia í London.  Sigurður er með mastersgráðu í stefnumótun og stjórnun listastofnana frá Birkbeck College, University of London og var í tólf ár stundakennari við sviðslistadeildir listaháskóla í London.

Sigurður kemur til starfa hjá Vestfjarðastofu í byrjun júní og mun leiða verkefnið Brothættar byggðir í Strandabyggð auk þess að sinna öðrum verkefnum tengdum atvinnu- og byggðaþróun hjá Vestfjarðastofu.

Sigurður segir frá því á facebooksíðu sinni að hann hverfi til nýrra og spennandi verkefna um mánaðarmótin. “Ég kveð Selasetrið með trega og stolti. Hér hefur margt áorkast þessi tæpu fimm ár sem ég hef leitt setrið. Eitt sinn sagði Napóleon sem svo að engu skipti hvort hershöfðingjar væru góðir, bara að þeir væru heppnir. Og ég hef sannarlega verið heppinn hér, átt gott samstarfsfólk og getað byggt á vinnu forvera minna”.

Trölli.is óskar Sigurði velfarnaðar á nýjum vettvangi.