Á föstudaginn fór fram lokaviðburður Norðansprotans sem er nýsköpunarkeppni þar sem leitað er að
áhugaverðustu nýsköpunarhugmynd Norðurlands. Leitin hófst 19. maí og voru 22 glæsileg verkefni
sem skiluðu inn umsóknum, en af þeim voru valin átta verkefni sem fengu að kynna verkefni sitt fyrir
dómnefnd.
Eftir kynningar og spurningar frá dómnefnd stóðu þrjú verkefni upp úr, voru það:
Norðursnakk – Verkefni sem sameinar íslenskan uppruna, gæði og frumleika í íslensku snakki úr til
dæmis harðfiski, þorskroði og byggi. Norðursnakk hlaut titilinn Norðansprotinn 2025 og 500.000 kr. í
verðlaunafé.
Affordable Iceland – vefsíða sem auðveldar ferðamönnum sem koma til Íslands við að skoða landið á
sem hagkvæmdastan hátt, hlaut verðlaunafé upp á 300.000 kr.
NorðanStraumur / StreamNorth – Auglýsinga og streymis vettvangur á netinu sem varpar ljósi á
viðburði, afþreyingu og umhverfi á Norðurlandi – í beinni og eftir á, hlaut verðlaun upp á 200.000 kr.
Dómnefndin var skipuð Sesselju Barðdal frá Drift EA, Sverri Gestssyni frá Upphaf fjárfestingasjóði, Jóni
Inga Bergsteinssyni frá IceBAN samtökum englafjárfesta og Hólmfríði Sverrisdóttur rektors Háskólans
á Hólum. Var dómnefnd sammála um að valið hefði verið einstaklega erfitt og greinilegt að mikil
gróska í norðlenskum frumkvöðlum.
Norðansprotinn er hluti af nýsköpunarferðalagi Norðurlands sem er ætlað að vera leiðarvísir
frumkvöðla frá hugmyndarstigi að fjárfestingu. Norðansprotinn er samstarfsverkefni SSNE, SSNV,
Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Drift EA, Eims og Hraðsins með veglegum stuðningi
frá Upphaf fjárfestingasjóði, sem veitti verðlaunafé til Norðansprotans.
Mynd/aðsend